Erlent

Fleiri dularfullir gígar finnast í Síberíu

Atli Ísleifsson skrifar
Þessi gígur fannst í Síberíu á síðasta ári.
Þessi gígur fannst í Síberíu á síðasta ári. Mynd/Siberian Times

Rússneskir vísindamenn hafa fundið fjóra gíga til viðbótar við þá þrjá dularfullu gíga sem fundust í Síberíu á síðasta ári. „Þetta verður að rannsaka betur þegar í stað, svo að við getum komið í veg fyrir stórslys í framtíðinni,“ segir Vasili Bogojavlensky, yfirmaður rannsóknarteymis sem hefur leitað skýringa á málinu.

Í júlí á síðasta ári vöktu myndir af þremur gígum á Jamalskaga í norðurvesturhluta Síberíu gríðarlega athygli, en þá var sagt að þeir hafi myndast á síðustu tveimur árum.

Hreindýrahirðar á svæðinu segja gígana hafa myndast eftir „sprengingar sem hafi fleytt mold og ryki í loft upp“.

Allt frá því að greint var frá tilvist gíganna hefur sérstakt rannsóknarteymi undir stjórn Bogojavlensky rannsakað svæðið í leit að fleiri sambærilegum gígum.

„Nú erum við búin að finna sjö slíka gíga. Fimm þeirra eru á Jamalskaga, einn í sjálfstjórnarhéraðinu Jamal og einn á Krasnoyarsvæðinu,“ segir Bogojavlensky í samtali við Siberian Times. Hann telur mögulegt að tugir slíkra gíga eigi enn eftir að finnast.

Vísindamenn segja mögulegt að sprengingarnar megi rekja til metangass sem hafi losnað í kjölfar hlýnandi loftslags.Fleiri fréttir

Sjá meira