Innlent

Hristir höfuðið yfir ungu fólki sem skorar á þingmenn að samþykkja áfengisfrumvarpið

Birgir Olgeirsson. skrifar
Jóhanna María er hugsi yfir áherslum ungs fólks sem skorar á þingmenn að samþykkja áfengisfrumvarpið.
Jóhanna María er hugsi yfir áherslum ungs fólks sem skorar á þingmenn að samþykkja áfengisfrumvarpið. Vísir/GVA
„Ég sit í nefnd sem fer með menntamál og þetta eru áherslur unga fólksins,“ segir Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, í Facebook-færslu þar sem hún segist hrista höfuðið yfir ungu fólkinu sem sendir þingmönnum áskorun um að samþykkja Áfengisfrumvarpið svokallaða sem myndi heimila sölu á áfengi í matvöruverslunum.

Nýverið opnaði vefsíðan Vinbudin.com sem er sögð rekin af áhugamönnum um aukið verslunarfrelsi á Íslandi. Á síðunni má finna upplýsingar um áhrif þess að afnema einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar Íslands á sölu á áfengi og þá er hægt að sjá á síðunni afstöðu þingmanna til áfengisfrumvarpsins, hvort þeir eru með því, á móti eða ekki búnir að taka afstöðu til þess.

Skjáskot af vefsíðunni Vinbudin.com þar sem notendur eru hvattir til að skora á þingmenn að samþykkja Áfengisfrumvarpið.vinbudin.com
Á síðunni eru notendur hennar hvattir til að skora á þingmenn að samþykkja þetta Áfengisfrumvarp og má því mögulega rekja þessar áskoranir sem hafa borist til Jóhönnu Maríu til þessarar síðu. Jóhanna María segist hafa tekið sig til og flett þessum einstaklingum upp sem hafa skorað á hana að samþykkja frumvarpið og komist að því að nokkrir þeirra eru undir þeim aldri að mega kaupa áfengi.

Hugsi yfir áherslum ungs fólks

„Hvaða hagsmuni hafa þeir af samþykkt þessa frumvarps og hver hvetur þessa einstaklinga til að senda póst á alþingismenn.“ spyr Jóhanna sem segir nokkra þessara einstaklinga ekki láta nafn sitt fylgja með og aðra ekki ganga undir réttum nöfnum. „Það er rosalega erfitt fyrir mig að taka mark á fólki sem getur ekki skrifað undir nafn sitt undir beiðnir eða sjá sig knúin til að nota dulnefni,“ skrifar Jóhanna María.

Hún bendir á að nokkrir þessara einstaklinga séu nýlega orðnir tvítugir og spyr hvort þetta sé virkilega helsta baráttumál ungmenna á Íslandi. „Ég sit í nefnd sem fer með menntamál og þetta eru áherslur unga fólksins ! Við höfum fjallað um LÍN, menntaskólana í landinu, rafræn námsgögn, húsaleigubætur og framlög til háskólastarfs ásamt fullt af málum er snerta ungt fólk, menntun þess, menningu, íþróttir o.s.frv. En núna þegar fjalla á um áfengi í búðir, þá heyrist í ungu fólki. Ég get ekki annað en hrist höfuðið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×