Innlent

Áfrýjar ekki dómi fyrir líkamsárásir á Litla-Hrauni

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Líkamsárásirnar áttu sér stað í útivistargarðinum við Litla-Hraun.
Líkamsárásirnar áttu sér stað í útivistargarðinum við Litla-Hraun. Vísir/GVA
Baldur Kolbeinsson unir dómi Héraðsdóms Suðurlands frá því í haust þar sem hann var dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir tvær árásar á samfanga sinn á Litla-Hrauni auk innbrots í Kópavogi. Hann mun því ekki áfrýja dómnum til Hæstaréttar samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Samkvæmt upplýsingum frá lögmanni Eggerts Kára Kristjánssonar, sem dæmdur var í sex mánaða fangelsi fyrir eitt af brotunum, hefur hann heldur ekki í hyggju að áfrýja.

Baldur var dæmdur fyrir ólögmæta nauðung og líkamsárás með því að hafa, í útivistargarði fangelsisins Litla-Hrauns, veist með ofbeldi að samfanga sínum þar sem hann sat á bekk, tekið um höfuð hans, makað og troðið saur í andlit hans og munn og því næst slegið hann tvisvar til þrisvar í höfuð og líkama með þeim hætti að maðurinn hlaut bólgna vör, eymsli í brjóstkassa og tognun í öxl.

Í sama máli voru hann og Eggert dæmdir fyrir líkamsárás, með því að hafa veist að samfanga sínum í sama útivistargarði með ofbeldi og veitt honum eitt til tvö högg með krepptum hnefa í andlitið. Þá var Baldur dæmdur fyrir þjófnað, líkamsárás og hótun með því að hafa farið inn um ólæsta útidyrahurð og stolið 13.000 krónum og seðlaveski húsráðanda í Kópavogi, slegið hann þrisvar með leikfangasverði í höfuðið og hótað honum lífláti ef hann myndi hringja á lögreglu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×