Skoðun

Vanmáttur og styrkur

Svala Ísfeld skrifar
Hæstaréttardómur frá 11. maí 1978, þar sem faðir Thelmu Ásdísardóttur var sýknaður af kynferðisbroti gagnvart elstu dóttur sinni, hefur verið til umfjöllunar síðastliðna daga í tilefni af meistararitgerð Áslaugar Einarsdóttur, þar sem hún deilir á fjölmiðla á þessum tíma og telur þá hafa brugðist skyldu sinni.

Þegar dómurinn er lesinn blasir við vanmáttur. Algjör vanmáttur. Allir brugðust systrunum fimm sem bjuggu í Gula húsinu í Hafnarfirði. Barnaverndaryfirvöld. Skólinn. Nágrannar. Réttarkerfið. Enginn kom þeim til hjálpar sem gagnaðist.

Í stað þess að rekja hér allt það sem brást í þessu máli, en þar er af nógu að taka, er vert að rifja upp hina hliðina. Björtu hliðina. Hún er sú að þessar fimm systur hafa sýnt og sannað að það er líf eftir alvarleg kynferðisbrot. Það er hægt að vinna úr erfiðleikum sem virðast utan séð frá óyfirstíganlegir. Systurnar hafa ekki aðeins unnið úr hremmingum æsku sinnar þannig að þær eigi innihaldsríkt líf heldur hafa þær nýtt reynslu sína á þann veg að gefa öðrum von og leiðsögn sem standa frammi fyrir sambærilegum aðstæðum.

Thelma ákvað árið 2005 að segja sögu sína. Gerður Kristný rithöfundur hlustaði á frásögn hennar og úr þeirri samvinnu varð til bókin Myndin af pabba. Saga Thelmu. Í henni lýsir Thelma bágum aðstæðum og fátækt sem fjölskyldan í Gula húsinu bjó við og því alvarlega og langvarandi andlega, líkamlega og kynferðislega ofbeldi sem heimilisfaðirinn beitti dætur sínar og eiginkonu. Bókin lét engan ósnortinn.

Það þarf kjark til að segja frá æskuminningum af þessu tagi. Thelma hafði þann kjark. Bókin vakti mikla athygli og umtal og varð metsölubók. Þar var afhjúpaður óþægilegur veruleiki sem enginn vill vita af. Fjölmörg viðtöl voru tekin við Thelmu og systur hennar í kjölfarið þar sem þær tjáðu sig opinskátt og hispurslaust um erfiðleika æsku sinnar. Þær vöktu athygli og aðdáun fyrir yfirvegaða framkomu sína og einlæga frásögn. Samstaða þeirra var eftirtektarverð og sá kærleikur sem ríkti á milli þeirra og væntumþykja þeirra í garð móður sinnar.

Opnuðu umræðuna

Systurnar fimm hafa lagt mikið af mörkum til umræðunnar um kynferðisofbeldi gegn börnum á Íslandi og eiga mikilvægan þátt í að opna gátt að svæði sem hafði að langmestu leyti verið lokað. Þær opnuðu umræðu um það sem enginn vill vita af eða tala um. Það er nefnilega fátt sem vekur jafn miklar tilfinningar með fólki og frásagnir af kynferðisofbeldi gegn börnum. Enginn vill vita til þess að börn séu meidd vísvitandi og viðbrögðin eru því í samræmi við það. Í bókinni var ekki aðeins lýst alvarlegu kynferðisofbeldi heldur og tegund ofbeldis sem ekki hafði áður komið fyrir sjónir almennings. Að faðir skyldi hafa komist upp með það árum saman að beita fimm dætur sínar jafn grófu ofbeldi og þar var lýst án þess að gripið hafi verið inn í og það stöðvað er þyngra en tárum taki. Ekki var nóg með að hann bryti gegn trúnaði dætra sinna og svipti þær því öryggi og skjóli sem heimilið ætti að veita þeim, heldur gekk hann lengra og seldi öðrum fullorðnum karlmönnum aðgang að líkama þeirra.

Eftir stendur systrahópur sem óhætt er að dást að fyrir það hugrekki og þá eljusemi sem þær hafa sýnt í viðleitni sinni til að vekja upp von hjá þeim sem deila reynslu af þessu tagi. Þær hafa sýnt og sannað að það er raunverulega hægt að vinna úr allra grófasta ofbeldi sem þar að auki er framið af þeim sem ætti að vernda mann og gæta. Thelma nýtti reynslu sína og þekkingu í starfi fyrir Kvennaathvarfið og Stígamót um árabil og stofnaði síðan samtökin Drekaslóð sem hafa það að markmiði að hjálpa þolendum ofbeldis að vinna úr sálarmeinum sínum.

Út úr jafn hörmulegu máli og lýst er í dómi Hæstaréttar frá 11. maí 1978 og bókinni sem skrifuð er eftir frásögn Thelmu komu eftir allt sem á undan var gengið fimm sterkar og samstiga systur. Þær höfðu kjark til að segja frá leyndarmálinu og bera með sér von og trú á farsælt líf. Það eru mikilvæg skilaboð til þeirra sem hafa mátt þola ofbeldi í æsku, þurfa að létta af sér slíkum byrðum og þurfa auk þess stuðning til að takast á við framtíðina. „Ég væri ekki sú sem ég er nema vegna þess að ég á þessa fortíð, bæði hryllinginn en einnig hugrekki, styrk og dýrmæta reynslu sem hefur nýst mér í mörgu“, segir Thelma sjálf.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×