Jól

Meistarakokkur á skjánum

Rikka skrifar
Eyþór Rúnars
Eyþór Rúnars visir/ernir
Eyþór Rúnarsson steig sín fyrstu skref í sjónvarpi sem einn af þremur dómurum í Masterchef Íslands fyrir tveimur árum. Hann snýr nú aftur á skjáinn og nú með sinn eigin matreiðsluþátt sem að hann kallar Eldhúsið hans Eyþórs. Fyrsti þátturinn fór í loftið í gærkvöldi og er lögð áhersla á hátíðarmatinn núna í desember. „Í þessum þremur fyrstu þáttum elda ég jólamat eins og ég vil helst hafa hann, allt frá forréttum til eftirrétta. Ég fer einnig í eina góða heimsókn í hverjum þætti þar sem ég kynni mér áhugaverða hluti sem tengjast mat og drykk,“ segir Eyþór. Sjálfur er Eyþór alinn upp í Suður-Þingeyjarsýslu þar sem hefðin var að borða rjúpu í hátíðarmatinn á heimilinu. „Ég er alinn upp við að borða rjúpu en konan mín hamborgarhrygg. Við vorum búin að þrasa um þetta í nokkur ár hvað við ættum að borða en svo tók ég af skarið fyrir einhver jólin og ákvað að prufa að elda fyllta önd. Það er nú gaman að segja frá því að við höfum ekki haft annan jólamat síðan og allir sáttir. Sonur okkar, sem er 4 ára, er alsæll með þennan jólamat en nú reynir á hvað dóttirin segir en þetta eru fyrstu jólin sem hún fær jólamat,“ segir hann og bætir við að hann komi til með að elda öndina í næstu viku.



Öllu vanur


Eyþór er öllu vanur í eldhúsinu og var hluti af kokkalandsliði Íslands í 7 ár og fyrirliði þess síðustu 3 árin sín í liðinu. „Ég fór í fjórar stórar keppnir með liðinu á þessum tíma. Það var gríðarlega skemmtilegur og krefjandi tími. Mig langar að nota þetta tækifæri og óska landsliðinu til hamingju með frábæran árangur á nýafstöðnu heimsmeistaramóti en það náði 5. sæti, sem er besti árangur Íslands hingað til,“ segir Eyþór, stoltur af kollegum sínum.

Nýlega tók okkar maður við stöðu yfirkokks á heilsuveitingastöðum Gló og njóta viðskiptavinir veitingastaðanna góðs af hæfileikum Eyþórs. „Það var kærkomin tilbreyting að byrja að vinna á Gló og matreiðslan öðru vísi en ég hafði áður unnið við. Í dag eru veitingastaðirnir fjórir en verða fimm á næstu vikum.“ Það er því nóg að gera hjá Eyþóri og spennandi tímar framundan bæði í sjónvarpinu sem og á Gló.

Laxatartar með estragondressingu á melbabrauði

6 msk. ólífuolía

4 greinar estragon

1 msk. rósapipar

200 g lax

1 stk. sellerístöngull (fínt skorinn)

½ stk. skalottlaukur (fínt skorinn)

1 stk. avókadó

2 msk. fínt rifin piparrót

½ appelsína, börkur

Blandið ólífuolíu og estragoni saman í mortel og maukið vel saman. Takið ca. 3 msk. af olíunni frá og geymið til að setja á melbabrauðið. Bætið rósapiparnum út í olíuna og brjótið hann niður. Skerið laxinn niður í litla bita og setjið hann í skál með skalottlauknum og selleríinu. Skerið avókadóið langsum og takið steininn úr því og skafið kjötið innan úr með skeið. Skerið avókadóið í jafn stóra bita og laxinn. Bætið piparrótinni og appelsínuberkinum út í og smakkið til með salti.

Estragondressing

2 msk. majónes

½ sítróna, safi

1 msk. piparrót

1 msk. fínt skorið estragon

Sjávarsalt

Blandið öllu hráefninu saman og smakkið til með salti.

Estragonmelbabarauð

3 msk. estragonolía

1 stk. langskorið brauð

Penslið brauðið með olíunni og kryddið með salti. Setjið inn í 180 gráða heitan ofninn í 10 mín.








×