Skoðun

Útvarpið okkar

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
Ég var átta ára þegar ég heyrði Helenu Eyjólfs fyrst syngja í útvarpinu. Ég stóð upp við útvarpið og grét af hrifningu. Ég man líka eftir fréttatímum í sveitinni á sumrin þegar ég var barn. Þá varð að ríkja þögn. Á kvöldin var þar sérstaklega hlustað á sögulegan fróðleik. Þannig ólst ég upp við virðingu fyrir útvarpinu og fann mikilvægi þess. Ríkisútvarpið skiptir mig enn þá miklu máli.

Á síðasta vori ákvað ég að hætta í föstu starfi. Ákvörðunin var afgerandi en ég hugsaði lítið út í hvað þetta skref hefði í för með sér. Breytingin hefur komið skemmtilega á óvart. Ég get verið meira ein með sjálfri mér en áður og get valið hvað ég geri og geri ekki. Þvílíkt frelsi; ég get sinnt sjálfboðastarfi, skrifað, haldið fyrirlestra, hlustað á erindi, sótt menningarviðburði, gengið og synt en staldra núna við það sem hefur gefið mér sérstaklega mikla ánægju síðustu mánuði.

Útvarp allra landsmanna

Með morgunkaffinu renni ég yfir dagskrá RÚV, Rás 1 og punkta hjá mér á hvað ég vil hlusta þann daginn. Ég vil hlusta á viðræðuþætti um líf fólks vegna þeirra margvíslegu sjónarmiða sem fram koma. Þátturinn hennar Sigurlaugar Jónasdóttur, „Segðu mér“, er dæmi um slíkan þátt. Ýmsir aðrir viðræðuþættir um málefni líðandi stundar geta aukið skilning og jafnvel umburðarlyndi.

Bókmenntaþættirnir hennar Jórunnar Sigurðardóttur eru óborganlegir svo ég tali ekki um þættina Samfélagið og Víðsjá þar sem umfjöllunarefnin virðast óþrjótandi. Ekki kemur til greina að missa af sögulegum fróðleik Illuga Jökulssonar þar sem hann geysist víða. Inn á milli er hvað eftir annað boðið upp á bráðmerkilegt efni eins og gagnrýnin umfjöllun Hjalta Hugasonar um trú, menningu og samfélag bar merki um fyrir stuttu. Þvílík dagskrá, þvílíkt val. Ég hef áhuga á þjóðlegum fróðleik og val mitt á útvarpsefni litast af því. Þess vegna hlustaði ég oft á „Sagnaslóð“, en hvað varð um þáttinn?

Á hátíðarstundum er talað um að Ríkisútvarpið sé útvarp allra landsmanna. Þannig á það líka að vera. Samtímis er stór hluti þjóðarinnar að hlusta á útvarpið; bændur um land allt, sjómenn á hafi úti, fólk í borg, bæjum og þorpum, ungir sem aldnir. Í gegnum þennan sterka miðil getur fólk fengið tilfinningu fyrir því að það sé hluti af heild. Það er ekki lítill ávinningur. Þess vegna er einnig nauðsynlegt að muna eftir fólkinu um allt land við dagskrárgerðina. Á því hefur verið nokkur meinbugur eftir að svæðisstöðvarnar nánast hurfu. Það er ljóst í mínum huga að Ríkisútvarpið hefur gríðarlega miklu hlutverki að gegna og það hlutverk þarf að vernda.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×