Lífið

Hleypur Kjöl fyrir umhverfismál

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Skóli Pavels leggur áherslu á umhverfismál.
Skóli Pavels leggur áherslu á umhverfismál. mynd/úr einkasafni
„Ég hef verið að kenna og læra um umhverfismál í 20 ár. Mig langaði að finna leiðir til að auka vægi þessarar umræðu og að hafa meiri áhrif á þetta alheimsvandamál, hlýnun jarðar,“ segir Bandaríkjamaðurinn Pavel Cenkl.

Hann stendur á bak við framtakið Kjölur Run. Cenkl er íþróttakennari við Sterling College-háskólann í Vermont-fylki sem leggur ríka áherslu á umhverfismál svo sem vistfræði, landbúnað og þol umhverfisins gegn loftslagsbreytingum. Cenkl stefnir á að hlaupa yfir Kjöl næsta sumar en hann heldur nú úti hópsöfnun á síðunni Indiegogo, bæði til að fjármagna ferðina sjálfa og til að fjármagna tvo skólastyrki til Háskólaseturs Vestfjarða og Sterling College. Styrkirnir færu þá í nám tengt umhverfismálum en Cenkl kenndi námskeið hér á landi á vegum Sterling College árið 2007.

„Að dreifa boðskapnum gæti veitt öðrum innblástur til að huga meira að loftslagsmálum, sérstaklega íþróttamönnum. Ég held að íþrótta- og ævintýrafólk hafi mjög sérstaka tengingu við náttúruna. Ef þú reynir á líkamlegt og andlegt þol þitt úti í náttúrunni verðurðu strax einhvern veginn nátengdari umhverfinu,“ segir hann.

„Ég vil veita íþróttamönnum sem eru sýnilegir í fjölmiðlum og eru fyrirmyndir annarra innblástur til að taka gáfulegar ákvarðanir um þeirra eigin tengsl við náttúruna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×