Innlent

Þjóðin klofin í afstöðu til skuldaleiðréttingarinnar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Afar skiptar skoðanir virðast vera á skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar. Þetta má lesa úr nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins.

Niðurstöðurnar sýna að 41 prósent landsmanna er sátt við skuldaleiðréttinguna, 32 prósent segjast ekki vera sátt, 22 prósent segjast vera óákveðin í afstöðu sinni og 5 prósent svara ekki.

Þegar einungis er tekið tillit til þeirra sem tóku afstöðu í skoðanakönnuninni segjast 56 prósent vera sátt við skuldaleiðréttinguna en 44 prósent segjast ekki vera sátt við hana.

Þegar svörin eru greind eftir aldri sést að þeir sem eru eldri eru mun jákvæðari gagnvart leiðréttingunni. Í aldursflokknum 50 ára og eldri segjast 63 prósent vera sátt við leiðréttinguna, en 37 prósent segjast ekki vera sátt. Í aldursflokknum 18 til 49 ára segjast hins vegar 50 prósent vera sátt og 50 prósent segjast ekki vera sátt.

Það vekur líka athygli að ánægjan með leiðréttinguna virðist vera minnst í Reykjavík. Þar segjast 47 prósent vera sátt við leiðréttinguna. Í öllum öðrum kjördæmum eru fleiri sáttir en ósáttir.

Það þarf ekki að koma á óvart að ánægjan með skuldaleiðréttinguna er langmest á meðal þeirra sem segjast ætla að kjósa Framsóknarflokkinn í næstu kosningum. Níutíu og fimm prósent þeirra segjast vera sátt, en einungis 5 prósent ósátt. Áttatíu og fjögur prósent sjálfstæðismanna segjast vera sátt og 16 prósent segjast ekki sátt. Ánægjan er mun minni á meðal stuðningsmanna stjórnarandstöðuflokkanna.

Niðurstöður skuldaleiðréttingarinnar voru kynntar í Hörpu á mánudaginn og strax þá um miðnætti gat fólk séð hver lækkunin á höfuðstól lána yrði.

Skoðanakönnun Fréttablaðsins var gerð 12. og 13. nóvember og var hringt í 1.244 þar til náðist í 800 manns. Það er 64,3 prósenta svarhlutfall. Úrtakið er lagskipt slembiúrtak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×