Skoðun

Kjör tónlistarkennara þarf að lagfæra strax

Þórður Á. Hjaltested skrifar
Verkfall Félags tónlistarskólakennara hefur nú staðið yfir í þrjár vikur. Verkfallið hefur að sumu leyti fallið í skuggann af verkfalli lækna þegar fjölmiðlar eru annars vegar og þar með samfélagið.

Verkfall tónlistarskólakennara er staðreynd og alvarlegt mál. Það er alvarlegt í þeim skilningi að Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur að mínu mati ekki gert neina alvörutilraun til að finna lausn á deilunni.

Félag tónlistarskólakennara er eitt sjö aðildarfélaga Kennarasambands Íslands og það er ofur eðlilegt að tónlistarskólakennarar miði sig við aðra kennara sambandsins, sem og aðra sérfræðinga í samfélaginu, í sinni kjarabaráttu.

Tónlistarskólakennarar krefjast þess að fá sambærileg laun fyrir sambærilega vinnu, á borð við vinnu leik- og grunnskólakennara sem þegar hafa samið við sveitarfélögin. Tónlistarskólakennarar fara ekki fram á ofurlaun; þeir fara fram á að fá mannsæmandi laun sem háskólamenntaðir kennarar, sérfræðingar í sínu fagi, og með sama hætti og aðrir kennarar hafa samið um.

Fyrir hönd KÍ krefst ég þess að forysta Sambands íslenskra sveitarfélaga hlutist þegar í stað um að veita samninganefnd sinni umboð til að semja við tónlistarskólakennara á svipuðum nótum og samið hefur verið við aðrar stéttir kennara sem starfa hjá sveitarfélögunum og eru félagsmenn KÍ.

Samninganefnd sveitarfélaga hefur blandað inn í deiluna öðrum málum en launakjörum og má þar nefna lengd skólaársins. Kennsla er ábyrgðarmikið starf og henni fylgir töluvert álag. Hugmyndir sveitarfélaganna um að ná fram enn meiri sveigjanleika í lengd skólaársins og styttingu kennslustunda veldur ómældu viðbótarálagi sem ég tel óásættanlegt. Krafan er í raun að kennarar vinni langt umfram 40 stunda vinnuviku á starfstíma skóla, sem er með öllu óásættanlegt. Ég skora á samninganefnd sveitarfélaganna að leggja þessa umræðu til hliðar og vinna þess í stað að því að bæta kjör tónlistarskólakennara sem hafa dregist verulega aftur úr launum sambærilegra hópa frá því eftir hrun. Þetta þarf að lagfæra og það strax. Annað er atlaga að tónlistarmenntun í landinu.




Skoðun

Sjá meira


×