Innlent

Kært vegna lambabítsins Myrkva í fyrra

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Bændurnir á Ósabakka vita ekki enn hversu mikið tjón þeirra verður vegna hundaárásarinnar í síðustu viku.
Bændurnir á Ósabakka vita ekki enn hversu mikið tjón þeirra verður vegna hundaárásarinnar í síðustu viku. Fréttablaðið/GVA

„Manni grunar að það séu fleiri tilfelli,“ segir Ísabella Theodórsdóttir, sem kveður hundinn Myrkva, sem talinn er hafa lagst á lömb í síðustu viku, hafa ráðist á hund hennar í fyrrasumar.

Ísabella var ásamt sínu fólki í heimsókn á bæ nærri Flúðum um verslunarmannahelgina í fyrra. Með í för var Fox Terrier hundur fjölskyldunnar. Við annað hús þar nærri var labradorblendingurinn Myrkvi.

„Hann rýkur beint í okkar hund án nokkurs aðdraganda og læsir kjaftinu alveg yfir bakið á honum, reisir hann upp og skellir honum í jörðina. Hann var bara að fara aflífa hundinn okkar,“ segir Ísabella, sem kveður hundunum þá strax hafa verið stíað í sundur.

Að sögn Ísabellu námu dýralækningareikningar í kjölfarið tugum þúsunda króna. Eigandi Myrkva hafi ekki viljað taka þátt í kostnaðinum. Því hafi málið á endanum verið kært til lðgreglu.

Eigandi Myrkva, sem ekkert vill láta hafa eftir sér undir nafni, telur segir kæru Ísabellu hafa verið ástæðulausa. Aðkomuhundur hafi komið askvaðandi að húsinu og lent saman við hans hund líkt og gangi og gerist.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær voru hundarnir tveir hvor úr sínu húsinu á tvíbýli í nágrenninu og hafa þeir iðulega verið í slagtogi. Um er að ræða jörð austan Stóru-Laxár en Ósbakki stendur handan árinnar. Yngri hundurinn var handsamaður af húsfreyjunni á Ósabakka og síðan aflífaður en hinn hundurinn, sem talinn er vera Myrkvi, komst undan.

Eigandi Myrkva segist alls ekki viss um að Myrkvi hafi átt þátt í atlögunni að lömbunum enda sé hann ekki árásargjarn. Þegar lögreglu hafi borið að garði hafi hundurinn legið þurr og hreinn á hlaðinu sem benti til þess að hann hefði ekki lent í nokkru misjöfnu. Hann hafi þó verið aflífaður í gær því ekki væri hægt að vera í óvissu með hundinn.

Lögreglan á Selfossi staðfestir að Myrkvi sé dauður. Málið frá í fyrra hafi ekki verið rannsakað vegna anna í öðrum málum. Nú verði bæði málin rannsökuð ofan í kjölinn.

Séu efasemdir eiganda Myrkva réttar gengur stórtækur dýrbítur enn laus við Stóru-Laxá.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.