Lífið

Gyðingar og dragdrottningar í nýju videoverki Snorra Ásmundssonar

Snorri segir ádeilu í verkinu, en segir þó gleðina ráða ríkjum.
Snorri segir ádeilu í verkinu, en segir þó gleðina ráða ríkjum. MYND/Spessi

Á sumardaginn fyrsta fóru fram tökur á nýju vídeóverki Snorra Ásmundssonar, „Hatikva“.

„Tökur tókust glimrandi vel en ég var með eintóma snillinga með mér í öllum hlutverkum. Ég fékk til dæmis Birgi Gíslason sem hefur áður verið með í gjörningi með mér og vin hans, Björgvin, til að leika rétttrúnaðargyðinga,“ segir Snorri, en Birgir hefur starfað mikið með Snorra.

„Svo kemur Auður Ómarsdóttir fram í gervi múslima og Rebekka Moran í gervi kúrekastelpu. Svo er Árni Grétar íklæddur leðurfrakka og með Davíðsstjörnuna um arminn,“ segir Snorri um verkið.

Hatikva er nafn á þjóðsöng Ísraels.

„Ég syng dansútgáfu af laginu á hebresku í gervi Dönu International sem vann Eurovision-keppnina 1998 fyrir hönd Ísraels,“ útskýrir Snorri.

Marteinn Thorsson sá um myndatöku og tónlistina útsetti Árni Grétar, betur þekktur sem Futuregrapher.

„Ég er búinn að vera með þetta verk í maganum í tvö ár svo það varð spennufall þegar ég lauk því loksins í gær. Ég frumsýni verkið í lok maí í 21der Haus, nútímalistasafni Vínarborgar,“ segir Snorri jafnframt, en hann fékk styrk úr Myndlistarsjóði fyrir verkinu.

Enn hafa ekki verið ákveðnar sýningar á verkinu hér á landi.

„Verkið hefur þegar vakið umtal og áhugi er víða og verður tónlistin meðal annars gefin út á vinýl í Belgíu. En ég tek fulla ábyrgð á þessu verki og geri mér grein fyrir að það á eftir að hreyfa við mörgum enda má sjá ádeilu í því þótt gleðin ráði ríkjum.“ Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.