Innlent

Segir óvissu um eldgos í Heklu

Freyr Bjarnason skrifar
Freysteinn Sigmundsson Segir að óvissa ríki um hvenær Hekla gýs næst.
Freysteinn Sigmundsson Segir að óvissa ríki um hvenær Hekla gýs næst. Fréttablaðið/Valli
Þensla eldfjallsins Heklu hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár. Jarðvísindamenn hafa búist við gosi frá því skömmu fyrir 2010 þegar þenslan mældist meiri en fyrir síðasta gos árið 2000.

„Í mínum huga er óvissa um hvenær Hekla gýs næst. En það er full ástæða til að fylgjast vel með og fara yfir viðbragðsáætlanir. En það gæti líka liðið einhver tími þar til næsta gos verður,“ segir Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

„Það sem við teljum að hafi verið að gerast undir Heklu síðan í síðasta eldgosi er að það hafi verið kvikusöfnun undir eldfjallinu jafnt og þétt. Hún gerist þannig að það safnast kvika undir fjallið og það rís lítillega og tútnar út um nokkra millimetra á ári. Við teljum ekki útilokað að Hekla geti enn um sinn safnað í sig meiri kviku,“ segir Freysteinn og bætir við að jarðskjálftar hafi verið meiri á svæðinu upp á síðkastið en undanfarin ár. „Ef til eldgoss kemur verða jarðskjálftar líklega sterkasta vísbendingin. Það gæti orðið með stuttum fyrirvara, einni til tveggja klukkustunda.“

Lögreglan í Rangárvallasýslu mælist til þess að fólk hafi með sér farsíma ef það ætlar að ganga á Heklu, svo hægt sé að koma skilaboðum til þess ef mælar sýna aðdraganda eldgoss. Unnin hefur verið ítarleg viðbragðsáætlun í samstarfi við ýmsa faghópa þar sem tillit er tekið til mismunandi gosa í Heklu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×