Lífið

Femínismi er ekki kúl

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Egill Fannar Halldórsson og Viktor Sveinsson hafa mikinn áhuga á að fræða fólk um femínisma og eru báðir mikli femínistar.
Egill Fannar Halldórsson og Viktor Sveinsson hafa mikinn áhuga á að fræða fólk um femínisma og eru báðir mikli femínistar. fréttablaið/valli
„Við vildum rannsaka viðhorf fólks á menntaskólaaldri til femínisma og niðurstöðurnar voru nett sláandi,“ segir Egill Fannar Halldórsson en hann og Viktor Sveinsson, báðir fyrrverandi nemendur í Menntaskólanum við Sund, unnu rannsókn á viðhorfum ungs fólks til femínisma sem lokakjörsviðsverkefni á síðasta ári.

Markmið verkefnisins var að láta fólk kynna sér femínisma og mynda sér sína eigin skoðun.

Þeir skiluðu niðurstöðu verkefnisins í formi fyrirlestra sem þeir fluttu fyrir nokkra bekki skólans en niðurstöðurnar voru sláandi. Þeir lögðu rafræna könnun fyrir tvö hundruð nemendur á menntaskólaaldri og kom í ljós að mikil fáfræði var um femínisma og jafnréttisbaráttu hjá unga fólkinu.

„Við töldum að það væri engin fræðsla um jafnréttisbarráttu kynjanna af viti í skólum, að fræðslan komi aðallega frá fjölmiðlum og að skilaboðin séu því oft röng. Niðurstaðan varð sú að krakkar hafa fordóma gegn femínismanum. Krökkum finnst ekki kúl að vera femínisti því þeir fá svo röng skilaboð í hendurnar,“ útskýrir Egill Fannar.

Áður en þeir lögðu af stað í rannsóknina kynntu þeir sér efnið mjög vel, lásu bækur og töluðu við góða kennara. „Ofan á það þá hittum við sérfræðinga, eins og Hildi Lilliendahl, við erum svolítið að tala hennar máli,“ bætir Egill Fannar við.

Góð stemning á fyrirlestri.mynd/einkasafn
Báðir eru þeir útskrifaðir úr MS en þó hafði skólinn samband við þá félaga um að flytja erindi sitt í jafnréttisviku þar fyrir skömmu. Einnig hafði Menntaskólinn í Kópavogi samband við þá og fluttu þeir erindi í jafnréttisviku þar. „Við fengum frábær viðbrögð við fyrirlestrunum. Við sáum hvað það var mikið hlustað á okkur, bæði nemendur og kennarar voru ánægðir með þetta.“

Egil Fannar og Viktor langar að flytja fyrirlestur sinn víðar og telja að allt ungt fólk hafi gott af því að fá fræðslu. „Okkar langar mikið að fara í fleiri skóla og fræða fólk.“

Þeir félagar leggja mikið upp úr því að gera efnið skemmtilegt og auðskiljanlegt. „Við förum yfir allan pakkann í fyrirlestrinum. Í upphafi var ég alltaf meiri femínisti en Viktor, og má segja að hann hafi verið akkúrat andstæðan við mig og kallaði hann femínista til dæmis flíspeysumömmur. Fyrirlesturinn er alveg dónalegur á köflum og við erum að sjokkera. Hins vegar hafa viðbrögðin verið frábær.“ Þeir hafa báðir meðal annars fengið Facebook-skilaboð frá ánægðum nemendum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×