Skoðun

Opið bréf vegna RIFF

Dimitri Eipides skrifar
Kæra borgarstjórn.

Það olli mér miklum vonbrigðum og eftirsjá að frétta að borgarstjórn Reykjavíkur hefði ákveðið að hætta stuðningi sínum við Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík.

Ég starfaði sem dagskrárstjóri RIFF frá 2005 til 2010 og frá upphafi voru markmið mín skýr. Ástæða þess að ég ákvað að taka þátt í þessu verkefni var sú að mér fannst Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík vettvangur til að koma á fót viðburði sem gæti leikið lykilhlutverk í að kynna kvikmyndagerð í hæsta gæðaflokki víðsvegar að úr heiminum og auðga þannig kvikmyndamenningu Reykjavíkurborgar. Á þessum árum varð ég mér til mikillar ánægju vitni að því hvernig áhorfendafjöldi jókst og hvernig áhorfendur jafnt sem erlendir fagaðilar notuðu hátíðina á skapandi og gefandi hátt, ekki síst til að gagnast innlendum kvikmyndaiðnaði og framleiðslu.

Það að byggja upp kvikmyndahátíð kallar á mikla fagþekkingu, vinnu og áhuga. Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, sem verður haldin í 11. sinn á þessu ári, hefur orðið að viðurkenndri hátíð alþjóðlega og hefur tekið á móti virtum kvikmyndagerðarmönnum og fagfólki frá öllum heimshornum. Hún hefur hlotið mikið lof alþjóðlegra gesta og fjölmiðla. Án nokkurs vafa eru tækifæri hennar til að þróast áfram og stækka augljós, að því gefnu að ekki séu gerðar tilraunir til að draga úr möguleikum hennar með því að stofna aðra viðburði henni til höfuðs. Það er afar sorglegt að svo merkur áfangi skuli steyta á hindrunum sem ógna framtíð hennar.

Ég vona innilega að borgarstjórn Reykjavíkur muni endurskoða ákvörðun sína og finna lausn sem muni tryggja framtíð hátíðarinnar. Það er trú mín að áframhaldandi stuðningur borgarstjórnar við kvikmyndagerðarlistina og þær stofnanir sem sýnt hafa mikinn árangur á þessu sviði sé skynsamlegasti valkosturinn.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×