Lífið

Verðlaunuð fyrir íslenska landslagsmynd

Ugla Egilsdóttir skrifar
Svala Ragnarsdóttir
Svala Ragnarsdóttir

Íslenskt landslag truflað af virkjanaframkvæmdum er yrkisefni Svölu Ragnarsdóttur í myndaseríu sem aflaði henni verðlauna í keppninni Top Thirty Under Thirty. „Ósnortið landslag er ímynd Íslands. Að sama skapi er virkjað úti um allt, en virkjanir eru ekki oft hafðar með á landslagsmyndum,“ segir Svala. Þrjátíu efnilegir ljósmyndarar voru valdir úr átta hundruð innsendum umsóknum. Keppnina hélt Magnum Photos, sem er ein virtasta umboðskrifstofa heims í ljósmyndun, og The Photography Show, sem er ein stærsta ljósmyndasýning sinnar tegundar á Bretlandi.

Verðlaunahafar fá að sýna á The Photography Show í Birmingham, og fá leiðsögn frá virtu fagfólki úr heimi ljósmyndunar. „Þetta er gott tækifæri fyrir ljósmyndara sem eru að stíga sín fyrstu skref á ferlinum,“ segir Svala. „Keppnin er opin öllum á milli átján ára og þrítugs. Ég átti alls ekki von á að komast áfram í keppninni, meðal annars vegna þess að verkefnið mitt er frábrugðið hefðbundnum fréttaljósmyndum,“ segir Svala. „Inn í þessa keppni átti að senda fimm mynda seríu sem segir einhverja sögu. Magnum Agency-umboðsskrifstofan byggir á þessari hefð frétta- og heimildaljósmynda,“ segir Svala.

Nesjavallavirkjun. Ein af myndunum í seríunni Orku. Mynd/Svala Ragnarsdóttir.


„Ég fékk pata af þessari keppni í skólanum og ákvað að senda útskriftarverkefnið mitt í hana.“ Svala lauk meistaranámi í frétta- og heimildaljósmyndun frá London College of Communication í desember síðastliðnum. „Hluti af þeim sem voru með mér í bekk ætla að helga sig fréttaljósmyndun af átökum í stríðshrjáðum löndum. Ég hef meiri áhuga á heimildaljósmyndaandanum,“ segir Svala.

Myndasería Svölu heitir Orka. „Allar myndirnar eru teknar heima á Íslandi síðasta sumar. Ég er búin að búa í London í þrjú og hálft ár og er heilluð af borginni. Þegar ég vil kafa djúpt eftir myndefni hef ég þó tilhneigingu til að fara heim. Þar hef ég meira að segja. Ég ferðaðist um Ísland og tók myndir af vatns- og jarðvarmavirkjunum. Það greip mig fyrst þegar ég var að rannsaka landslagsljósmyndun að virkjanir voru ekki hafðar með á landslagsmyndum. Mig langaði að sýna landslag truflað af þessum framkvæmdum. Þessar virkjanir hafa jákvæða ímynd í útlöndum, þær eru það sem kallað er „grænar,“ og ekki eins skaðlegar og olíuframkvæmdir. Þetta er áhugaverður debatt sem mig langaði til að fanga á mynd.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.