Skoðun

Einstein var innflytjandi

Hanna Birna Kristjánsdóttir skrifar
Við höfum alltaf litið á það sem kost þegar ungir Íslendingar fara utan til að mennta sig og koma síðan heim til að starfa við það sem numið var. Með sama hætti ættum við að líta á það sem kost þegar erlendir ríkisborgarar vilja koma hingað til lands til að stunda nám eða starfa.

Það eru tækifæri fólgin í því að fjölga útlendingum hér á landi. Ég sótti nýlega ráðstefnu um innflytjendamál þar sem það var rifjað upp með eftirminnilegum hætti að Albert Einstein hefði verið innflytjandi – en tilgangurinn var augljóslega sá að benda okkur réttilega á að innflytjendum fylgja nýjar hugmyndir, ný tækifæri, nýjar lausnir og nýr heimur.

Ég tel að við eigum að búa þannig í haginn fyrir land okkar og samfélag að við séum opin fyrir því að útlendingar setjist hér að. Umræðan um útlendinga á Íslandi snýr oftast að erlendum fjárfestingum í ákveðnum atvinnugreinum eða stöðu hælisleitenda. Við getum vandað til verka við hvort tveggja – og það ætlum við m.a. að gera með þeim breytingum sem nú eru í farvegi til að gera afgreiðslu hælismála skilvirkari og skýrari og eins með því að fá fram skýrari lagaramma um erlendar fjárfestingar hér á landi.

En við skulum þó ekki gleyma stóru myndinni. Hér höfum við góð lífsskilyrði, öfluga skóla og síbatnandi hagkerfi. Við megum ekki missa af þeim tækifærum sem felast í því að fá hingað útlendinga. Þannig tengjum við Ísland enn betur við umheiminn – og um leið umheiminn við Ísland. Við viljum vera land tækifæranna, við viljum vera land umburðarlyndis og við viljum vera land fjölbreytninnar. Við viljum víkka út sjóndeildarhringinn og við viljum vera opin fyrir þeim tækifærum sem okkur gefast.

Þetta er ekki mál sem snýst um hina hefðbundnu hægri-vinstri pólitík. Öll viljum við nýta þau tækifæri sem okkur gefast. Það að opna Ísland fyrir fjölbreyttari hópi Íslendinga er eitt af þeim tækifærum.




Skoðun

Sjá meira


×