Innlent

Utanvegaakstur bresks blaðamanns hér á landi kærður til lögreglu

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér má sjá skjáskot úr myndbandinu.
Hér má sjá skjáskot úr myndbandinu.
„Við lítum þetta mjög alvarlegum augum,“ segir Guðfinnur Sigurvinsson, upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar. Vísir sagði frá því að lögfræðingar stofnunarinnar væru að skoða myndband sem sýndi blaðamann Sunday Times keyra utan vega hér á landi þegar hann reynsluók nýjum Land Rover Discovery.

Afrit af myndbandinu verður nú sent til lögreglunnar og þess óskað að hún rannsaki það. Umhverfisstofnun getur eingöngu kært svona hluti til lögreglu, en stofnunin rannsakar málið ekki.

„Eins og þetta blasir við okkur er þetta alveg skýrt. Við teljum að þarna sé verið að brjóta lög, að þetta sé klárlega utanvegaakstur.“

Hér má sjá hluta jeppanna sem eru hér á landi í tengslum við kynninguna.
Fulltrúar Sunday Times hafa nú fjarlægt myndbandið af netinu, en það hefur vakið mikla athygli. Þar sást blaðamaður miðilsins keyra utan vegar, bæði upp grasbrekku og í sandfjörunni við Kleifarvatn. Þar festir hann bílinn og þarf aðstoð við að losna.

Þetta er í annað skiptið á stuttum tíma sem myndband af erlendum gestum að keyra utan vega ratar á veraldarvefinn. Í október voru nokkrir bandarískir velhjólakappar kærðir til lögreglu fyrir utanvegaakstur.

Vísir sagði frá því fyrr í mánuðinum að hér á landi væri mikill fjöldi af nýrri jeppategund, Land Rover Discovery Sport. Þessi nýja tegund verður kynnt fyrir erlendum bílablaðamönnum næstu sex vikurnar. 

Von er á miklum fjölda erlendra bílablaðamanna í tengslum við kynninguna. Búist er við yfir þúsund blaðamönnum sem munu koma hingað og prófa Land Rover Discovery Sport jeppann, auk þess sem þeir geta reynsluekið jeppum á borð við Range Rover Evoque og fleiri sambærilegra bíla. Land Rover Discovery Sport er einskonar arftaki Land Rover Freelander jeppans, en er ekki enn kominn í sölu. Blaðamennirnir munu gista á þremur hótelum í borginni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×