Innlent

Sérsveitarmenn vakta hús fulltrúa sýslumanns

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mennirnir tveir eru í haldi lögreglu en farið hefur verið fram á gæsluvarðhald yfir þeim.
Mennirnir tveir eru í haldi lögreglu en farið hefur verið fram á gæsluvarðhald yfir þeim. Vísir
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið yfir rannsókn í máli þar sem bensínsprengju eða svonefndum Molotov kokteil var kastað í bíl fulltrúa Sýslumannsins á Akureyri við heimili hans í bænum í gærmorgun. Fyrr um nóttina ógnaði grímuklæddur maður fulltrúanum með hníf á heimili hans. Tveir menn eru í haldi lögreglu vegna málsins og hefur verið farið fram á gæsluvarðhald yfir þeim. Óttast er að þriðji maðurinn, höfuðpaurinn í málinu, gangi mögulega enn laus.

Mennirnir voru í annarlegu ástandi þegar þeir voru handteknir í gær og hófust yfirheyrslur ekki fyrr en síðdegis. Reiknað er með því að mennirnir verði úrskurðaðir í gæsluvarðhald upp úr hádegi í dag.

Ástæða þess að lögreglan í höfuðborginni hefur tekið yfir rannsókn málsins er sú að lögreglan norðan heiða ákvað að segja sig frá málinu enda um árás gegn fulltrúa embættisins á Akureyri að ræða.

Hefði getað farið mun verr

Samkvæmt heimildum Vísis hefði getað farið mun verr hefðu ódæðismennirnir verið betur að sér við gerð bensínsprengju. Hefði hún verið útbúin á réttan hátt hefði hún getað valdið skaða allt upp í tíu til fimmtán metra radíus.

Vikudagur hefur eftir nágrönnum mannsins í Brekkuhverfi að þeir séu óttaslegnir. Hafi sumir meira að segja vopnast af ótta við frekari ódæðisverk í hverfinu.

Þá greinir Akureyri.net frá því að mennirnir tveir séu á þrítugsaldri og hafi báðir komið við sögu lögreglu. Annar sé raunar nýkominn út fangelsi. Hinn sæti ákæru fyrir tilraun til manndráps.

Þá ku annar mannanna hafa ráðist á starfsmann á skrifstofu sýslumanns á Akureyri á mánudaginn. Var hann ósáttur við að fá ekki afgreiðslu eftir auglýstan opnunartíma. Sló hann starfsmann í brjóst og tók á honum.


Tengdar fréttir

Krefjast gæsluvarðhalds yfir brennuvörgum á Akureyri

Tveir karlmenn, sem handteknir voru á Akureyri í gærmorgun, grunaðir um að hafa áður kveikt í bíl með bensínsprengju, eða svonefndum Molotov kokteil, eru enn í haldi lögreglunnar og verður karfist gæsluvarðhaldsúrskurðar yfir þeim innan stundar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×