Fótbolti

Jón Daði: Cech bara mannlegur eins og við hin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Plzen skrifar
Ísland mætir Tékklandi í undankeppni EM 2016 hér í Plzen á morgun en íslensku strákarnir komu til landsins frá Belgíu í gær. Jóni Daða Böðvarssyni líkar vel við vistina í Tékklandi hingað til.

„Það er flott hérna. Hótelið er gott og stemningin í hópnum er góð. Við eigum von á erfiðum leik á morgun,“ segir Jón Daði en hann segir að Belgíuleikurinn sé ekki lengur í huga leikmannanna.

„Við tökum það sem er jákvætt úr honum með okkur í næsta leik. En nú er annar og mikilvægari leikur fram undan,“ segir Jón Daði en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

Jón Daði á erfitt með að meta hvort að leikurinn verði frábrugðinn síðasta leik Íslands í undankeppninni er strákarnir unnu 2-0 sigur á Hollandi.

„Tékkarnir eru væntanlega búnir að fara vel yfir okkar leiki. Þeir hafa byrjað betur en Hollendingar í riðlinum og eru líklega sigurstranglegri aðilinn í þessum leik.“

„Annars tel ég að liðin séu nokkuð áþekk. Bæði eru afar vinnusöm og leikmenn vinna vel fyrir hverja aðra. Þetta verður líklega stál í stál.“

Petr Cech stendur í marki Tékka en hann á langan feril að baki með Chelsea þar sem hann hefur verið einn besti markvörður ensku úrvalsdeildarinnar í mörg ár. Sóknarmaðurinn Jón Daði er spenntur fyrir því að mæta honum.

„Það verður skemmtilegt en hann er auðvitað bara mannlegur eins og maður sjálfur. Þetta er auðvitað frábær leikmaður og það væri skemmtilegur bónus ef okkur tækist að skora á hann.“


Tengdar fréttir

Fyrirliðinn ekki lengur flippaði gaurinn í landsliðinu

Aron Einar Gunnarsson hefur margsannað sig sem leiðtogi íslenska landsliðsins innan vallar sem utan. Hann segist stoltur af því að fá að kalla sig fyrirliða þessa hóps og vonar að uppgangurinn sé rétt að byrja.

Kolbeinn: Framherjar verða að halda ró sinni þó illa gangi

Kolbeinn Sigþórsson lætur gagnrýnisraddir ekki setja sig úr jafnvægi. Á ýmsu hefur gengið hjá liði hans, Ajax í Hollandi, en hann segist ánægður þar þó að hann hafi verið hársbreidd frá því að yfirgefa félagið.

Tékkarnir eru eins og vel smurð vél

Ísland og Tékkland, tvö efstu liðin í A-riðli í undankeppni EM 2016, mætast sunnudaginn 16. nóvember næstkomandi og Heimir Hallgrímsson fór yfir tékkneska liðið á blaðamannafundi í dag þar sem íslenski hópurinn var tilkynntur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×