Erlent

Rússneski björninn sýnir klærnar á Norðurslóðum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Topol-kjarnorkuflauginni skotið á loft upp í gær á Arkhangels-svæðinu.
Topol-kjarnorkuflauginni skotið á loft upp í gær á Arkhangels-svæðinu. Mynd/Rússneski herinn.
Rússneski herinn hefur rækilega minnt á kjarnorkumátt sinn á síðustu dögum með margvíslegum hætti á Norðurslóðum og raunar víðar um vestan-, norðan- og austanverða Evrópu. Þannig hafa þeir sýnt alla kjarnorkuþrennu sína; flugu flota kjarnorkusprengjuflugvéla, skutu kjarnaorkuflaug úr kjarnorkukafbáti og skutu kjarnorkuflaug á loft af landi.

Síðast í gærmorgun skutu þeir svokölluðu Topol M-flugskeyti á loft frá Arkhangelsk-svæðinu en það getur borið kjarnorkusprengjur heimsálfa á milli. Nokkrum mínútum síðar hitti flugskeytið æfingaskotmark sitt á Kamsjatka-skaga á austurströnd Rússlands. Á miðvikudag skaut rússneskur kjarnorkukafbátur svokölluðu Bulava-flugskeyti á loft en hann var þá staddur í undirdjúpum Barentshafs.

Kjarnorkusprengjuflugvélar af gerðinni TU-95, sem Íslendingar þekktu sem rússneska birni og Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli kynntist reglulega í kaldastríðinu, hafa einnig verið mikið á ferðinni síðustu daga.  Fjórar slíkar vélar flugu á föstudag, í fylgd fjögurra Iljusjin-78 eldsneytisbirgðavéla, úr Barentshafi og með ströndum Noregs og fóru norskar orustuþotur frá Bodø til móts við þær. Fjallað er um málið í norskum miðlum.

TU-95, oft kallaðar Björninn, á flugi á miðvikudag. Myndin var tekin úr breskri orustuþotu.Mynd/Breski flugherinn
Samskonar floti átta rússneskra herflugvéla birtist einnig á miðvikudag, þær flugu inn á Norður-Atlantshaf, niður með ströndum Noregs og inn á Norðursjó. Tvær vélanna flugu alla leið suður undir lögsögu Portúgals áður en þær sneru aftur heim til Rússlands. Breski og portúgalski flugherinn sendu einnig orustuþotur til móts við flugflotann. 

Rússneski herinn hefur einnig sýnt mátt sinn og megin með samsvarandi hætti síðustu daga í Eystrasalti og Svartahafi og sagði NATO í fréttatilkynningu fyrir helgi að þetta stóraukna flug Rússa sýndi óvenju mikil umsvif í loftrými Evrópu. NATO sagði rússnesku flugvélarnar ekki hafa kynnt neinar flugáætlanir, þær höfðu engin radíósamskipti við flugstjórnarmiðstöðvar og voru með slökkt á ratarsvörum. Þetta skapaði hættu fyrir almenna flugumferð.

Rússar reyna ekki með neinum hætti að fela þessi hernaðarumsvif sín gagnvart almenningi á Vesturlöndum. Þvert á móti hafa þeir birt myndbönd af eldflaugaskotunum á youtube. Hér má sjá Topol-flaugina og hér er Bulava-flaugin úr kafbátnum.

Tupolev-sprengjuflugvélin tekur eldsneyti frá Iljusjin-vélinni úti fyrir ströndum Noregs.Mynd/Norski herinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×