Innlent

Kemur til greina að Gæslan skili byssunum

Heimir Már Pétursson skrifar
Georg Lárusson (annar frá hægri), forstjóri Landhelgisgæslunnar, á fundi allsherjarnefndar Alþingis.
Georg Lárusson (annar frá hægri), forstjóri Landhelgisgæslunnar, á fundi allsherjarnefndar Alþingis. Vísir/GVA
Yfirmenn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Landhelgisgæslunnar komu fyrir tvær nefndir Alþingis í morgun, annars vegar vegna skýrslu lögreglunnar um mótmæli í búsáhaldabyltingunni og hins vegar vegna byssuinnflutnings Gæslunnar. Forstjóri Gæslunnar segir til greina koma að skila byssunum ef þær reynist ekki vera gjöf frá Norðmönnum.

Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar og fleiri yfirmenn hennar komu fyrir allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis í morgun til að svara spurningum um innflutning á hátt í 300 hríðskotabyssum stofnunarinnar frá Noregi í febrúar, sem enn hafa ekki verið tollafgreiddar og eru nú innsiglaðar af Tollinum í geymslu Gæslunnar á Keflavíkurflugvelli.

Georg segir nefndina hafa viljað vita hvort leynd hefði hvílt yfir innflutningnum en svo hafi ekki verið. Hins vegar hafi ekki unnist tími til að tollafgreiða vopnin þótt tollurinn hafi vitað af innflutningnum.

„Þegar það kom upp að það kynni að leika vafi á því hvort um gjöf eða sölu væri að ræða var það sameiginleg ákvörðun landhelgisgæslu og tollstjóra að rétt væri að innsigla þessi vopn á meðan það mál væri óleyst. Og þannig verður það þar til búið er að skera úr um það. Ef gefandinn hefur skipt um skoðun þá nærð það bara ekki lengra. Þá er bara tvennt til. Þá er annað hvort að borga þessi vopn eða skila þeim aftur. Meðan ekki er búið að leysa úr þessu eru vopnin undir innsigli og fara hvergi enda engin brýn þörf á þeim hér á allra næstunni,“ segir Georg.

Gæslan hafi átt í gjöfulu samstarfi við Norðmenn á undanförnum áratugum og af þeim samskiptum hefði mátt ráða að um gjöf væri að ræða eins og áður. Enda hafi Gæslan fengið 50 hríðskotabyssur frá Norðmönnum árið 2011 án þess að reikningur væri sendur fyrir þeim.

Við erum þótt lítil séum sjálfstætt ríki, er ekki meiri reisn yfir því að löggæslustofnanir eins og Landhelgisgæslan og lögreglan fari ekki bónveg til búðar heldur fest kaup á vopnum þegar á þarf að halda?

„Jú það er svo sannarlega rétt. Það er svo margt í þessu þjóðfélagi sem þyrfti að vera meiri reisn yfir hvað varðar fjármál eins og á stendur nú. En við erum að reyna að bjarga okkur við erfitt árferði,“ segir Georg.

Þá komu Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu og nokkrir af æðstu yfirmönnum lögreglunnar á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis vegna skýrslu lögreglu um búsáhaldabyltinguna, birtingu skýrslunnar og nafgreinda einstaklinga þar.

Sigríður Björk segir ekki hennar að meta hvaða forsendur lágu til grundvallar skýrslugerðarinnar á sínum tíma, enda var hún þá ekki í þessu embætti.

„Það er svona eftir á að hyggja þá hefði sumt af því sem kom fram í samantektinni mátt setja fram með öðrum hætti. Til dæmis hvað varðar aðferðir lögreglu, sem var einn af tilgangnum með þessari samantekt, hefði ekki þurft nöfn eða einhverjar persónulegar skoðanir inn í þá umfjöllun. En eins og ég segi það er voðalega auðvelt að koma eftirá og meta hvernig hefði átt að gera hlutina,“ segir Sigríður Björk.


Tengdar fréttir

Byssurnar um borð í skipin

Landhelgisgæslan ætlar að nota þær eitt hundrað hríðskotabyssur sem hún fékk frá Norðmönnum um borð í skipunum sínum og í varahluti.

Ráðherrar sverja af sér vélbyssur

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segist ekki haft nein afskipti af komu 250 MP5-hríðskotabyssa hingað til lands. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra segir að lögreglan hafi heimild til að endurnýja búnað sinn án þess að ráðherra skipti

Utanríkisráðuneytið kom ekki að vopnakaupunum

Utanríkisráðherra segist með engum hætti hafa komið að kaupunum á vélbyssunum frá Noregi þvert á það sem kom fram á fundi Allsherjarnefndar Alþingis í vikunni.

Tollskylt hafi vopn verið keypt

Tollstjóri hefur innsiglað norsku hríðskotabyssurnar vegna óvissu um hvort þær eru keyptar eða gefnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×