Skoðun

Ég er tónlistarkennari i verkfalli

Kristín Lárusdóttir skrifar
Hvert er málið!? Afhverju er ekki hægt að verða við kröfum tónlistarkennara!? Við tónlistarkennarar erum einungis að krefjast sanngjarnrar leiðréttingar á okkar launum og erum með heilbrigðar kröfur varðandi okkar starf. Við erum jafn mikilvæg og hver önnur stétt! Við erum stétt með margra ára menntun að baki og sérfræðingar í okkar krefjandi starfi. Við tökum þátt í uppeldi barnanna í voru landi.

Tónlistarkennsla skilar sér inn í hvert einasta skúmaskot og inn í hvert einasta sálartetur í þessu landi og út um allan heim. Hún skilar sér í góðri sjálfsmynd þjóðar út á við. Hver er ekki rogginn yfir því að nefna: „Sigur Rós“, „Ásgeir Trausta“, „Of Monsters and Men“, „Björk“, „Airwaves“? Það/þau væru ekki til ef ekki væri fyrir gott tónlistarskólakerfi og frábæra tónlistarkennara í landinu. Kerfi sem hefur þurft að þola harkalega aðför síðustu árin og á greinilega núna endanlega að ganga frá!

Síðan hló bara kæri borgarstjóri 4. nóvember 2014 og gantaðist þegar við sungum fyrir hann og afhentum ályktun! Gantaðist með okkar lifibrauð! Og margir aðrir ráðamenn sýna málinu engan skilning. Ég á varla heila sokka. Og það er spurning um hvort að ég eigi salt í grautinn um jólin.

Margir af foreldrum nemanda minna hafa ekki mikið á milli handanna en borga samt tónlistarnám fyrir börnin sín, því að þeim er annt um þeirra hag og þroska. Þetta eru peningar sem fara nú til spillis vegna þess að það er ekki hægt að sýna tónlistarkennurum þá lágmarks virðingu að fá lágmarks laun og skilning fyrir sitt starf. En þó síðast en ekki síst... sýnum börnunum okkar í þessu landi lágmarks virðingu og hlúum að þeim og þeirra umhverfi til þroska!




Skoðun

Sjá meira


×