Erlent

Óttast að hryðjuverkamenn noti ebólu sem vopn

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Engar vísbendingar eru um að liðsmenn Íslamska ríkisins séu að reyna að gera ebólu að vopni.
Engar vísbendingar eru um að liðsmenn Íslamska ríkisins séu að reyna að gera ebólu að vopni.

Mikill ótti er meðal nokkurra þingmanna Repúblikana á bandaríska þinginu vegna útbreiðslu ebólu. Tveir þingmenn flokksins, Mike Kelly og Joe Wilson, hafa lýst þessum ótta sínum í ræðum og viðtölum þar sem þeir velta upp þeim möguleika að veiran verði notuð í hryðjuverkaárás á Bandaríkin.

Wilson, sem er þingmaður fyrir Suður-Karólínu í fulltrúadeild þingsins, sagði á fimmtudag í umræðum á opnum fundi að hann óttaðist að liðsmenn Hamas, sem eru palestínsk samtök, kæmu til Bandaríkjanna með ebólusmitaðan einstakling til að dreifa veirunni. Sagði hann einu leiðina til að verjast því vera að loka landsmærunum.

Í viðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina NewsMaxTV talaði Kelly, þingmaður Pennsylvaníu á þinginu, hinsvegar um ógnina sem stafaði af því að Íslamistar kæmu til landsins smitaðir af veirunni. „Ég vil að fólk hugsi um þetta. Það eru bandarískir ríkisborgarar sem hafa farið úr landi og til annarra hluta heimsins til að læra að gera hræðilega hluti,“ sagði hann.

Engar vísbendingar eru þó um að hryðjuverkahópar séu að reyna að gera ebólu að vopni. Bandaríska alríkislögreglan, FBI, lýsti því yfir á fimmtudag að það væri engin hætta talin á því að meðlimir Íslamska ríkisins myndu reyna slíkt. Sama hefur varnarmálastofnun Bandaríkjanna sagt.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur einnig útilokað að landamærunum verði lokað til að bregðast við útbreiðslu ebólu. „Við getum ekki bara lokað á Vestur-Afríku,“ sagði Obama í vikulegu ávarpi í síðustu viku. Varaði hann líka landa sína að láta espa upp í sér hræðslu vegna veirunnar. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.