Viðskipti innlent

Telja að hægt verði að fá meiri tekjur með sölu um sæstreng

"Þetta lítur út fyrir að vera mjög spennandi mál fyrir íslenskan þjóðarhag,“ segir Gústaf Steingrímsson hjá hagfræðideild Landsbankans.
"Þetta lítur út fyrir að vera mjög spennandi mál fyrir íslenskan þjóðarhag,“ segir Gústaf Steingrímsson hjá hagfræðideild Landsbankans. Vísir/Vilhelm
Sæstrengur milli Íslands og Bretlands gæti skilað þjóðarbúinu um þrjátíu og fimm milljörðum á ári samkvæmt útreikningum hagfræðideildar Landsbankans.

Greining hagfræðideildar á framkvæmdinni byggir meðal annars á skýrslu sem Hagfræðistofnun vann i samvinnu við Landsvirkjun. Greiningin miðast við að 800 megawatta strengur verði lagður á milli landanna og að um helmingur raforkunnar fáist úr jarðvarma, fjórðungur úr vatnsafli og fjórðungur úr vindorku.

Hagfræðideild telur að það muni taka um 15 ár að greiða upp allan kostnað vegna sæstrengsins. Hreinn þjóðhagslegur ábati fyrir Ísland muni nema um 35 milljörðum króna á ári. Bankinn vísar í þessu samhengi á greiningu The European Network of Transmission System Operators for Electricity.



Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans, ræddi málin í hádegisfréttum Bylgjunnar.



„Svona forsendur sem við gáfum okkur um hvaða verð væri hægt að fá í samningi við breska ríkið gefa mjög ásættanlegar tekjur og arðsemi af verkefninu,“ segir Gústaf.

Gústaf segir að miðað við reikninga Hagfræðideildar sé mjög æskilegt að stjórnvöld skoði málið ofan í kjölinn.

„Þetta lítur út fyrir að vera mjög spennandi mál fyrir íslenskan þjóðarhag.“

Aðspurður hvort betra sé að selja raforku til Bretlands um sæstreng heldur en í stóriðju sagði Gústaf:

„Það er allavega mjög líklegt að við fengjum umtalsvert hærra verð fyrir raforku með því að selja hana í gegnum sæstreng en í stóriðju miðað við þá samninga sem gerðir hafa verið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×