Erlent

Wasabi er ekki alltaf wasabi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sushi og wasabi, eða réttara sagt, piparrót.
Sushi og wasabi, eða réttara sagt, piparrót. Vísir/Getty
Mörgum þykir sushi agalega gott og ekki þykir græna gumsið sem kemur með sushi-bitunum, wasabi, verra. Ekki er þó allt sem sýnist því wasabi er í raun sjaldnast ekta wasabi. Frá þessu er greint á bloggsvæði Washington Post.

Þar kemur fram að græna gumsið sem kemur með sushi-bitunum og við köllum wasabi er í raun piparrót sem búið er að lita með grænum matarlit, bæta nokkrum tegundum af sinnepi við og gjarnan fleiri bragðefnum.

Þetta er langt frá hinu ekta wasabi sem kemur úr wasabi-plöntunni. Plantan getur orðið tæpur metri á hæð og er alræmd fyrir hversu erfitt er að vinna hráefnið úr henni. Alvöru wasabi er því sjaldgæft á markaði og fáir hafa smakkað það.

Ástæðan fyrir því að piparrót er frekar notuð með sushi heldur en alvöru wasabi er einföld: eftirspurnin eftir wasabi er meira en framboðið. Erfiðleikarnir við að rækta og vinna hráefnið úr wasabi-plöntunni valda því einnig að alvöru wasabi er mun dýrara í framleiðslu. Sushi-bakkinn myndi því kosta talsvert meira en nú væri alvöru wasabi með en ekki græna piparrótargumsið. Neytendur myndu því síður splæsa í sushi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×