Innlent

Þorsteinn til varnar Sigmundi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/daníel
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir Helga Hjörvar, þingflokksformann Samfylkingarinnar, hafa farið með rangt mál í ræðustól síðastliðinn fimmtudag.

Vísar hann þar með í gagnrýni Helga sem sagði forsætisráðherra hafa skipt hrægammasjóðum sem áttu að standa undir leiðréttingu heimilanna út fyrir heimilin sjálf, sem standa eigi undir kostnaðnum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Helgi tókust á vegna málsins í gær en forsætisráðherra sagði þingflokksformanninn fara með algjör ósannindi. Helgi sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins í gær og hefur Þorsteinn Sæmundsson nú gert slíkt hið sama en hann segir að nokkuð hafi verið um rangfærslur í máli Helga sem hann telur mikilvægt að séu leiðréttar.

Hér má sjá yfirlýsingu Þorsteins:

Rangfærsla 1: Að heimilin sjálf greiði fyrir skuldaleiðréttinguna.

Hið rétta er að það hefur ávallt legið fyrir frá því framkvæmd leiðréttingarinnar var kynnt að sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki, svokallaður bankaskattur, hefur verið hækkaður verulega og undanþága fjármálastofnana í slitameðferð frá skattinum verið afnumin. Gert er ráð fyrir að þessi breyting á bankaskattinum auki tekjur ríkissjóðs um 92 milljarða króna á fjórum árum. Í fyrsta sinn eru þrotabúin skattlögð, nokkuð sem fyrrverandi ríkisstjórn heyktist á að koma í verk allan sinn starfstíma. Það hefur alltaf legið fyrir að ríkið gæti þurft að vera milliliður, sérstaklega ef menn vildu flýta leiðréttingunni. Því er fráleitt að halda því fram að heimilin séu sjálf að borga leiðréttinguna.

Rangfærsla 2: Þingmaðurinn fer mikinn vegna vaxtabóta og velur að sjálfsögðu að nota árið 2011 sem viðmiðunarár en þá voru vaxtabætur hæstar. 

Hið rétta er að vaxtabætur hafa farið lækkandi á hverju ári frá 2011 vegna bættrar eiginfjárstöðu heimilanna. Bætt eiginfjárstaða heimilanna varð þingmanninum raunar að umræðuefni nýlega þar sem hann taldi skuldaleiðréttinguna ónauðsynlega hennar vegna.  Erfitt er að gera sér grein fyrir hvað þingmaðurinn nákvæmlega vill.

Rangfærsla 3: Að fyrirhuguð skuldalækkun heimilanna nemur 5% af skuldum þeirra m.v. skuldastöðu heimilanna í dag.

Í þessu dæmi tekur þingmaðurinn mið af heildarskuldum heimilanna þ.m.t. yfirdráttar og Visa skuldir, í stað þess að líta til húsnæðislána. Vissulega stendur núverandi ríkisstjórn með heimilunum í landinu en aldrei stóð til að leiðrétta Visa skuldir.  Hið rétta er að áætlanir gera ráð fyrir að meðallækkun verðtryggðra húnæðisskulda samkvæmt leiðréttingunni verði um 11% en það hlutfall er háð fjölda þeirra sem rétt eiga á leiðréttingu. 69.000 heimili sóttu um en það er ljóst að einhver hluti þeirra eru með gengistryggð lán og eiga því ekki rétt á leiðréttingu verðtryggðra lána. Heildarupphæð húsnæðislána í lok árs námu 1.242 milljörðum króna skv. Hagstofunni en ekki 1.927 milljörðum eins og kemur fram í tilkynningu þingmannsins.

Rangfærsla 4: Að meðallækkun skulda í niðurfærslunni sé um ein milljón kr. á heimili og greiðslubyrði lækki að meðaltali um 5.000 kr. á mánuði.  

Hið rétta er að gert er ráð fyrir 1,1 milljón á heimili í meðalskuldalækkun. Í byrjun næsta mánaðar kemur í ljós hve mikil meðalleiðrétting verður en ljóst er að hún verður vel yfir milljón að meðaltali. Í grófum dráttum má gera ráð fyrir 7-9 þúsund króna lækkun á greiðslubyrði á mánuði en stór hluti mun lækka greiðslubyrði sína verulega umfram það eða á bilinu 12-20 þúsund krónur á mánuði.

Rangfærsla 5: Að matarverð hækki um 5% við breytingar á lögum um virðisaukaskatt.

Þingmaðurinn segir að hækkun neðra þrep VSK úr 7% í 12% muni hækka matarverð um 5%.  Þarna ,,gleymir" þingmaðurinn að taka inn í myndina afnám vörugjalda m.a. af matvælum.  Einnig ,,gleymir" þingmaðurinn að taka tillit til lækkunar efra þreps VSK og áhrifa þess. Hið rétta er að verð á nauðsynjum mun skv. núverandi frumvarpi hækka um 3,4% en að teknu tilliti til áhrifa niðurfellingu vörugjalda og lækkun efra þreps ásamt hækkun barnabóta mun kaupmáttur heimila aukast um 0,5%.

Varðandi breytingar á lögum um virðisaukaskatt þá er afleiðing breytinganna sú að  greiðslubyrði íslenskra heimila lækkar um 3,7 milljarða en hækkar ekki, líkt og þingmaðurinn heldur fram. Skattbreytingarnar auka ráðstöfunartekjur heimilanna um 2,7 milljarða og barnabætur um 1 milljarð til viðbótar. Ef við lítum einungis til þessarra tveggja breytinga þá hækka ráðstöfunartekjur um 0,5% og verðlag lækkar um 0,2%.




Tengdar fréttir

Segir Sigmund hræddan við staðreyndir

Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, skutu föstum skotum hvor á annan á Alþingi í gær. Helgi hefur nú svarað Sigmundi með ítarlegri röksemdarfærslu.

Hrægammasjóðum skipt út fyrir heimilin

Þingflokksformaður Samfylkingarinnar segir að heimilin sjálf muni standa undir kostnaðinum við leiðréttingu húsnæðisskulda með hækkun virðisaukaskatts á matvæli. Ósvífinn málflutningur að mati forsætisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×