Erlent

Barack Obama: "Við getum ekki bara lokað á Vestur-Afríku“

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Obama ávarpaði Bandaríkjamenn í dag þar sem hann talaði um ebólu.
Obama ávarpaði Bandaríkjamenn í dag þar sem hann talaði um ebólu. Vísir / AP
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hvetur landa sína til að láta ekki espa sig upp í hræðslu vegna ebólu. Þrjú tilfelli hafa greinst í Bandaríkjunum síðustu vikur en tugir manna eru undir eftirliti yfirvalda vegna veirunnar. Þetta sagði hann í ávarpi í dag.

Í máli forsetans kom skýrt fram að hann ætlaði ekki að láta undan þrýstingi nokkurra þingmanna sem kallað hafa eftir ferðatakmörkunum. „Við getum ekki bara lokað á Vestur-Afríku,“ sagði Obama í vikulegu ávarpi. „Að reyna að loka af hluta af heiminum – ef það er hægt yfir höfuð – gæti í raun gert stöðuna verri,“ sagði hann.

Talið er að um 4.500 manns séu látnir í ebólufaraldrinum sem nú geisar en langflestir hinna látnu veiktust í Líberíu, Síerra Leóne og Gíneu. Einn hefur látist í Bandaríkjunum vegna ebólusmits en það var Líberíumaður sem var tiltölulega nýkominn til Bandaríkjanna frá heimalandi sínu.

Obama hefur verið gagnrýndur vestanhafs fyrir það hvernig stjórnvöld hafa tekið á ebólumálinu. Hann hefur haldið nokkra fundi um faraldurinn og á föstudag skipaði hann lögfræðinginn Ron Klain til að hafa yfirumsjón með tilraunum Bandaríkjamanna til að hafa stjórn á útbreiðslu veirunnar. Repúblikanar hafa meðal annars gagnrýnt Obama fyrir að velja ekki lækni í það hlutverk.

Afar litlar líkur eru á því að veiran breiðist frekar út í Bandaríkjunum sem og annarsstaðar í vestrænum heimi. Veiran smitast aðeins með beinni snertingu við líkamsvessa smitaðs einstaklings sem farinn er að sýna einkenni. Aðeins er fylgst heilbrigðisstarfsmenn sem önnuðust Líberíumanninn sem lést og þeim einstaklingum sem átt hafa í samskiptum við þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×