Innlent

Tónlistarkennarar samþykktu að fara í verkfall

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Sigrún segist ánægð með kjörsóknina.
Sigrún segist ánægð með kjörsóknina. Vísir / Anton

Vinnustöðvun var samþykkt með miklum meirihluta. Þetta eru niðurstöður atkvæðagreiðslu kennara í Félagi tónlistarkennara sem lauk í dag. Kennarar í félaginu eru þeir einu innan vébanda Kennarasambands Íslands sem ekki hafa náð samningum. Búið er að reyna samninga síðastliðna níu mánuði án árangurs.

Sigrún Grendal, formaður félags tónlistarkennara, segir að mikill meirihluti hafi samþykkt verkfallsboðunina. „Atkvæði greiddu 77,5 prósent og það voru 93,88 þeirra sem sögðu já,“ segir hún um niðurstöðurnar. „Niðurstaðan er skýr og endurspeglar það sem við höfum fundið á félagsmönnum.“

Kosningin var rafræn og olli það nokkrum erfiðleikum. „Við erum gríðarleg ánægð með kjörsóknina því að það elti okkur sú ólukka að alla þessa daga var bilun hjá þeirri bankastofnun sem dreifir íslyklum í heimabanka,“segir hún. „Menn eru búnir að vera sveittir og hafa haft mikið fyrir hverju einasta atkvæði.“

Niðurstöðurnar eru komnar í hendur ríkissáttasemjara og samninganefndar sveitafélaga.

Atkvæðagreiðslan hófst 30. september síðastliðinn og stóð til klukkan tvö í dag. Vinnustöðvunin hefst 22. október næstkomandi og mun hún hafa talsverð áhrif á tónlistarkennslu í landinu. Næsti samningafundur hefur verið boðaður á morgun.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.