Erlent

Salmond segir Skota hafa verið blekkta

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Alex Salmon ætlar að hætta sem fyrsti ráðherra Skotlands.
Alex Salmon ætlar að hætta sem fyrsti ráðherra Skotlands. VÍSIR/Getty Images
Fyrsti ráðherra Skota segir að þeir sem kusu nei og gegn því að þjóðin tæki upp sjálfstæði frá Bretlandi hafi verið blekktir. Meirihluti kjósenda kaus gegn sjálfstæði Skotlands í síðustu viku.

Alex Salmond, fyrsti ráðherra Skotlands, sakar forystumenn þriggja meginflokka Bretlands um að blekkja kjósendur með síðbúnum loforðum skömmu fyrir kosningar. Salmond segir að loforð breskra stjórnmálamanna um aukin völd Skotlands án sjálfstæðis hafi unnið kosningarnar.

Kjósendur í Skotlandi höfnuðu sjálfstæði á fimmtudag. 55% sögðu nei við sjálfstæði en 45% sögðu já. David Cameron forsætisráðherra, Nick Clegg aðstoðarforsætisráðherra, og Ed Miliband leiðtogi verkamannaflokksins tóku virkan þátt í kosningabaráttunni og lofuðu að völd Skotlands yrðu aukin að loknum þingkosningum í Bretlandi á næsta ári - sama hvaða ríkisstjórn sæti við stjórnvölin.

Salmond sakar forystumenn breskra stjórnmála um að ganga að baki orða sinna um leið og atkvæðagreiðslunni lauk. Salmond segir að kynna hafi átt tillögu um að auka völd Skota fyrir breska þinginu strax að loknum kosningum á föstudag en það mun dragast á langinn þar sem forystumenn meginflokkanna hafa ekki náð saman um hvernig eigi að meðhöndla málið.

Talsmaður forsætisráðuneytisins í Downings strætis vísar orðum Salmond um blekkingar á bug og leggur áherslu á að ríkisstjórnin standi fyllilega að baki þeim loforðum um að Skotland fái aukin völd. Skýr tímarammi sé í kringum málið og drög að lagafrumvarpi verði gefið út í janúar.

Salmond til­kynnti á föstu­dag­inn að hann hyggðist segja af sér sem for­sæt­is­ráðherra í kjöl­far niður­stöðu þjóðar­at­kvæðagreiðslu um sjálf­stæði Skot­lands. Hann hyggst einnig segja af sér sem leiðtogi Skoska þjóðarflokks­ins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×