Innlent

Féllu í sprungu við Þríhnúkagíg

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá Þríhnúkagígum.
Frá Þríhnúkagígum. Vísir/Vilhelm
Tvær manneskjur hafa verið fluttar á Landspítalann í Fossvogi eftir að hafa fallið í sprungu austan við Þríhnúkagíg í Bláfjöllum á tólfta tímanum í dag. 

Um er að ræða bandarískan karlmann á sjötugsaldri og íslenska konu á fimmtugsaldri sem voru í ferð með hópi. Féllu þau af göngubrú milli gígsins og bílastæðis á svæðinu.

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti þau á slysstað og flutti á Landspítalann í Fossvogi í tveimur ferðum. Að sögn vakthafandi læknis á slysadeild er konan með talsverða höfuðáverka og heilahristing eftir fallið og hefur verið lögð inn á gjörgæslu. Karlmaðurinn er einnig með höfuðáverka en með fullri meðvitund og kominn úr lífshættu. 

Konan féll um sjö metra ofan í sprunguna en maðurinn um þrjá til fjóra metra. Í fyrstu var talið að fólkið hefði fallið í Þríhnúkagíginn sjálfan og að fallið hefði numið tuttugu til þrjátíu metrum en nú liggur fyrir að svo var ekki. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×