Innlent

Haldið sofandi á gjörgæslu eftir slys í Bláfjöllum

Heimir Már Pétursson skrifar
Íslensk leiðsögukona hlaut alvarlega höfuðáverka og er haldið sofandi á gjörgæsludeild og bandarískur ferðamaður slasaðist lítillega þegar þau féllu niður í sprungu skammt frá Þríhnúkagíg í Bláfjöllum í morgun. Tugir björgunarsveitarmanna og þyrla Landhelgisgæslunnar voru komin á vettvang skömmu eftir slysið.

Björgunarsveitarmenn komu mjög fljótlega á slysstaðinn sem var milli Þríhnúkagígs og bílastæðis við skíðalandið í Bláfjöllum. Íslensk leiðsögukona með hóp ferðamanna og bandarískur karlmaður á sjötugsaldri skrikaði fótur og féllu um sjö metra ofan í sprungu.

Þyrla Landhelgisgæslunnar kom mjög fljótlega á vettvang og sótti fólkið og flutti það á slysadeild Landsspítalans í Fossvogi. Konan er að sögn vakthafandi læknis á slysadeild með talsverða höfuðáverka og fékk heilahristing eftir fallið og var lögð á gjörgæsludeild. Þar gekkst hún undir aðgerð og er nú haldið sofandi.

Karlmaðurinn er einnig með höfuðáverka en var með fulla meðvitund og ekki í lífshættu. Lyftan í Þríhnúkagíg er biluð en gígurinn er tugir metrar  á dýpt og ekkert grín að ná fólki þaðan upp. Þess vegna var viðbúnaður björgunarsveita og annarra mjög mikill þar sem hugsanlega hefði þurft mikinn mannskap við björgunaraðgerðir.

Konan sem sýnd er í sjónvarpsfréttinni er þó ekki sú sem haldið er sofandi á gjörgæsludeild.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×