Íslenski boltinn

Alan Lowing framlengir við Víkinga

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alan Lowing í bikarleik gegn Fylki fyrr í sumar.
Alan Lowing í bikarleik gegn Fylki fyrr í sumar. vísir/daníel

Alan Lowing, miðvörður Víkings í Pepsi-deild karla í fótbolta, skrifaði undir nýjan samning við Fossvogsfélagið í kvöld.

Lowing framlengdi við Víkinga um tvö ár, en núgildandi samningur hans átti að renna út eftir yfirstandandi tímabil.

Þessi 26 ára gamli miðvörður hefur spilað mjög vel fyrir Víkingsliðið í sumar, en eftir að fá rautt spjald í fyrsta leik gegn Fjölni og taka út eins leiks bann hefur hann spilað alla leiki liðsins í deildinni og verið þess besti varnarmaður.

Víkingar hafa aðeins fengið á sig 20 mörk í Pepsi-deildinni, en það er á pari við tvö af þremur toppliðunum; KR (19) og Stjörnuna (20). Ekkert lið hefur þó fengið á sig færri mörk en FH eða ellefu talsins.

Lowing kom til Íslands um mitt sumar árið 2011 og gekk þá í raðir Fram. Hann spilaði með Frömurum í tvö og hálft ár áður en hann var látinn fara frá Safamýrarliðinu og Víkingar sömdu við hann.

Víkingar mæta Val í gríðarlega mikilvægum leik í Evrópubaráttunni á Víkingsvellinum á sunnudaginn klukkan 17.00.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.