Innlent

Aðgerðir koma illa við ferðaþjónustuna

Hrund Þórsdóttir skrifar
Þrátt fyrir að eldgos sé ekki hafið hafa hræringarnar undir Bárðarbungu þegar haft mikil áhrif á samfélagið, meðal annars á ferðaþjónustu. Lokið var við rýmingu á hálendinu í nótt og aðgerðirnar koma eðlilega illa við þá sem hafa lifibrauð af ferðamennsku.

Ferðafélag Akureyrar rekur skála bæði í Herðubreiðarlindum og við Drekagil, rétt hjá Öskju. Ef til flóðs kemur gæti flætt yfir Herðubreiðarlindir og í gær var Ferðafélaginu einnig gert að tæma skálann Dreka.

„Það er mikið að gera í Dreka svo þetta mun hafa mikil áhrif á innkomu hjá félaginu,“ segir Stefán Sigurðsson, gjaldkeri hjá Ferðafélagi Akureyrar.

Ferðafélagsmenn fengu undanþágu frá hálendisbanninu í dag til að undirbúa skálana fyrir veturinn. Ekki er gert ráð fyrir að hægt verði að opna þá aftur í sumar.

„Svo náttúrulega ef allt fer á versta veg eigum við þrjár byggingar í Herðubreiðarlindum og þær gætu skemmst,“ segir Stefán.

Stefán bendir á að þeir sem geri út á dagsferðir á svæðið verði fyrir miklu tjóni.

„Svo náttúrulega opnaði svo seint í sumar út af snjóum svo þetta hefur klárlega áhrif á þessa aðila og okkur líka.“

Rauði krossinn opnar fjöldahjálparmiðstöð

Aðgerðastjórn á vegum Rauða krossins tók til starfa á Húsavík í gær auk þess sem fjöldahjálparmiðstöð var opnuð á Mývatni. Þar leituðu sex ferðamenn sem víkja þurftu af hálendinu húsaskjóls í nótt en Rauði krossinn er einnig tilbúinn með slíkar stöðvar á Húsavík og Kópaskeri.

„Hlutverk Rauða krossins er félagslegt hjálparstarf og það er í okkar verkahring að opna stöðvar og taka við fólki og hafa yfirlit yfir hverjir eru á svæðum og þvíumlíkt,“ segja Guðný Björnsdóttir og Gunnhildur Sveinsdóttir hjá Rauða krossinum. Þær segja liðsmenn samtakanna reiðubúna til að leysa úr málum sem upp koma.

„Svo kannski má nefna að okkar hlutverk er sálrænn stuðningur á svona tímum svo það fer auðvitað eftir því hvað gerist hvernig honum verður háttað. Það hefur oft komið sterkt inn hjá okkur þar sem fólk verður fyrir áföllum.“


Tengdar fréttir

Líkist æ meir kvikuinnskoti sem ekki nái til yfirborðs

Atburðarásin í Bárðarbungu minnir mjög á Kröfluelda, segir Páll Einarsson prófessor, og telur þetta geta verið upphafið að margra ára ferli, en segir þó minnkandi líkur á að eldgos sé yfirvofandi.

Brýrnar gætu sópast burt og Dettifoss sorfist niður

Hrinan í Bárðarbungu er mjög öflug og full ástæða til að gera ráð fyrir eldgosi, að mati sérfræðings Veðurstofu Íslands. Viðvörun gagnvart alþjóðaflugi var í dag sett á næstefsta stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×