Erlent

Fyrsta konan til að hljóta Fields-verðlaunin

Atli Ísleifsson skrifar
Maryam Mirzakhani er prófessor við Stanford-háskóla í Kaliforníu.
Maryam Mirzakhani er prófessor við Stanford-háskóla í Kaliforníu. Vísir/AFP
Íranskur stærðfræðingur varð í dag fyrsta konan til að hljóta Fields-verðlaunin í stærðfræði.

Maryam Mirzakhani, prófessor við Stanford-háskóla í Kaliforníu, var ein fjögurra sem hlutu verðlaunin á alþjóðlegri ráðstefnu stærðfræðinga sem nú fram fer í Seúl í Suður-Kóreu fyrr í dag. Verðlaunin fékk hún fyrir rannsóknir sínar á sviði aflfræði og rúmfræði.

Fields-verðlaunin eru afhent á fjögurra ára fresti og geta fleiri en einn hlotið þau í hvert skipti. Í frétt New York Times segir að litið sé svo á að hljóta verðlaunin jafnist á við að hljóta Nóbelsverðlaun fyrir stærðfræðinga.

Hinir þrír sem hlutu verðlaunin í þetta skiptið voru Artur Avila, brasilískur stærðfræðingur, Manjul Bhargava við Princeton-háskóla og Martin Hairer við Warwick-háskóla í Bretlandi.

Fyrir afhendinguna í morgun höfðu 52 hlotið verðlaunin, allt karlmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×