Innlent

Óprúttinn aðili í gervi N1 safnar aðgangsorðum

Bjarki Ármannsson skrifar
N1 hefur þegar haft samband við þá sem standa að síðunni.
N1 hefur þegar haft samband við þá sem standa að síðunni. Mynd/Skjáskot/AFP

Vefsíða sem ber heitið n1leikur.net og segist bjóða möguleika á því að vinna miða á tónleika Justin Timberlake þann 24. ágúst er ekki á vegum fyrirtækisins N1 og allt bendir til að markmið síðunnar sé að fá fólk til að gefa upp aðgangsorð sitt á Facebook.

Allmargir deildu síðunni á samskiptamiðlum í gær og tóku þátt í von um ókeypis miða. Að sögn Halldórs Harðarsonar, framkvæmdastjóra markaðssviðs N1, fékk fyrirtækið ábendingar um leikinn í morgun. Stuttu síðar gaf fyrirtækið út tilkynningu þar sem fram kemur að verið sé að nota vörumerkið í leyfisleysi til að safna persónuupplýsingum.

„Leikurinn“ virkar þannig að þátttakendur slá inn kennitölu sína og er þá viðkomandi beðinn um að skrá sig inn á Facebook-síðu sína „vegna öryggisástæðna.“

Halldór segir að búið sé að hafa samband við aðilana sem skráðir eru með ip-tölu síðunnar og að lögmenn fyrirtækisins hafi einnig verið látnir skoða málið. Hann segir það vel koma til greina að kæra þá sem fyrir þessu standa.

Vísir hvetur alla þá sem tekið hafa þátt í leiknum til að skipta um aðgangsorð á Facebook hið snarasta.

Innlegg frá N1.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira