Innlent

Slasaðist alvarlega við klifur við Stjórnarfoss

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar. Mynd/Jón Hermannsson
Björgunarsveitin Kyndill á Kirkjubæjarklaustri var kölluð út í dag þegar tilkynning barst um slasaða konu við Stjórnarfoss nærri Klaustri. Konan var í klifri þegar hún féll og meiddist að því er fram kemur á heimasíðu Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Konan er svissnesk og átján ára gömul.

Henni skrikaði fótur þegar hún hugðist stytta sér leið fram hjá blautum slóðum sem lá upp að Stjórnarfossi. Við það féll hún marga metra með fyrrgreindum afleiðingum.

Sjúkrabíll var einnig sendur á staðinn og þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út. Búið var um konuna og henni komið í sjúkrabíl á meðan beðið var eftir þyrlunni sem kom á slysstaðinn um klukkan 15.

Þyrlan lenti við mjög erfiðar aðstæður í þröngu gilinu og flaug svo innar í það til að ekki þyrfti að aka með konuna, sem talin er alvarlega slösuð, í sjúkrabílnum í ósléttu gilinu að þyrlunni. Hún er nú á leið með konuna á sjúkrahús í Reykjavík.



Hér að neðan má sjá myndir sem Jón Hermannsson í svæðisstjórn björgunarsveita tók af vettvangi slyssins.

Uppfært klukkan 17:50

Að sögn vakthafandi læknis var ekki hægt að gefa upp aðrar upplýsingar en þær að líðan konunnar er stöðug.

MYND/JÓN HERMANSSON
MYND/JÓN HERMANSSON
MYND/JÓN HERMANSSON
MYND/JÓN HERMANSSON



Fleiri fréttir

Sjá meira


×