Innlent

Áframhaldandi vera Hönnu Birnu í embætti skaðar almannahagsmuni

Hjörtur Hjartarson skrifar
Stjórnsýslufræðingur segir að Hanna Birna Kristjánsdóttir ætti að víkja úr embætti innanríkisráðherra. Vera hennar í embætti beri vott um vonda stjórnsýslu.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar íhuga að leggja fram vantraustillögu á innanríkisráðherra þegar Alþingi kemur saman í næsta mánuði.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa þingmenn stjórnarandstöðunnar átt í óformlegum viðræðum um að leggja fram vantrausttillögu á Hönnu Birnu þegar Alþingi kemur saman í næsta mánuði. Sjálf hefur Hanna Birna vísað öllum ásökunum á hendur sér á bug og ber ekki á öðru en hún hyggist sitja sem fastast þrátt fyrir þrýsting um annað úr ákveðnum áttum.

Albert Guðmundsson, sagði af sér sem iðnaðarráðherra, árið 1987 vegna deilna um skattamál. Sjö árum síðar baðst Guðmundur Árni Stefánsson lausnar frá embætti félagsmálaráðherra eftir að Ríkisendurskoðun hafði gert alvarlegar athugasemdir við ákveðin embættisverk hans.

Þetta eru einu tvö dæmin um að ráðherrar hafi beinlínis hrökklast úr starfi eftir lýðveldisstofnun. Dæmi eru að sjálfsögðu um að ráðherrar hafi beðist lausnar eða verið færðir til af ýmsum ástæðum en Albert og Guðmundur skera sig nokkuð úr þeim hópi.

Spurningin er því; hafa íslenskir ráðherrar, nú í 70 ár, almennt verið óskeikulir í starfi eða er hefðin einfaldlega sú að standa beri af sér storminn og sitja sem fastast - sama hvað?

„Já, það er hluti af þessari pólitísku menningu hér á Íslandi, það er að standa af sér ákveðinn storm. Menn líta á þetta sem storm sem líður hjá. Og þegar mönnum hefur tekist að standa af sér storm þá hafa þeir sett nýja staðla. Við það hafa þeir líka myndað ákveðið þanþol, aukið þanþol almennings fyrir því hvað er hægt og hvað er ekki hægt í íslenskum stjórnmálum,“ segir Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, stjórnsýslufræðingur.

Sigurbjörg telur að Hanna Birna verði að víkja úr embætti, annars er hætta á að stjórnsýslan á Íslandi skaðist.

„Þetta snýr að opinberri stjórnsýslu og það að pólitískur yfirmaður sem er lýðræðislega kjörinn, neitar að víkja við þessar aðstæður, þá er hann að skaða stjórnsýsluna. Og um leið og hann er að skaða stjórnsýsluna, eins og við sjáum núna, þetta hefur áhrif á embættismenn sem við þurfum að bera mikið traust til, þá er ráðherra að skaða almannahagsmuni,“ segir Sigurbjörg.

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, stjórnsýslufræðingur
Enginn af þeim þingmönnum stjórnarflokkanna sem fréttastofa ræddi við í dag vildi tjá sig um málið í dag. Framsókn vill ekki blanda sér opinberlega í embættisverk einstakra ráðherra Sjálfstæðisflokksins á þessu stigi málsins á meðan þingmenn Sjálfstæðisflokksins bíða viðbragða frá umboðsmanni alþingis eftir að hann fær svör við sínum fyrirspurnum til innanríkisráðherra. Svörin frá Hönnu Birnu fær hann í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×