Fótbolti

Ísland upp um 84 sæti á tveimur árum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfarar Íslands.
Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfarar Íslands. Vísir/Daníel

Nýr styrkleikalisti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, var gefinn út í morgun en þar situr Ísland í 47. sæti.

Ísland hoppar upp um fimm sæti eftir 1-0 sigur á Eistlandi í byrjun síðasta mánaðar en liðið hefur aðeins einu sinni verið ofar á síðustu árum. Það var í október í fyrra er liðið komst upp í 46. sæti.

Ísland náði sögulegri lægð í apríl árið 2012 er það féll niður í 131. sæti listans. Lars Lagerbäck var þá nýtekinn við liðinu sem tapaði fyrstu tveimur leikjum sínum - æfingaleikjum gegn Japan og Svartfjallalandi - undir hans stjórn.

Eftir það hefur uppgangur liðsins verið mikill og síðan í september í fyrra hefur liðið aldrei fallið neðar en í í 58. sæti. Þess má geta að Japan er í 45. sæti listans nú og Svartfjallaland í 50. sæti.

Ísland nálgast nú sinn besta árangur á listanum en efst komst liðið í 37. sæti árið 1994.

Næsti landsleikur verður gegn Tyrklandi í undankeppni EM 2016 í september næstkomandi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira