Erlent

Peanut krýndur ljótasti hundur í heimi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Peanut.
Peanut. vísir/afp
„Peanut er einn ljótasti hundur sem tekið hefur þátt í keppninni. Hann er bara hryllilegur,“ sagði Brian Sobel, einn dómaranna í keppninni Worlds Ugliest Dog eða Ljótasti hundur í heimi.

Hinn tveggja ára gamli rakki Peanut var í gær krýndur ljótasti hundur í heimi í borginni Petaluma í Kaliforníu. Að sögn viðstaddra bar hann höfuð og herðar yfir alla aðra keppendur. Hundurinn Quasi Modo þótti sigurstranglegur en fékk hann þó einungis 671 atkvæði á meðan Peanut fékk 1.795 atkvæði.

Quasi Modo. Í hann vantar þó nokkra hryggjarliði.vísir/afp
„Ekki láta tennur hans hræða ykkur! Hann er ekki að urra. Hann er að brosa,“ segir Holly Chandler, eigandi Peanut. „Þrátt fyrir að andlit hans hafi hrætt marga í burtu, þá hefur það brætt hjarta mitt.“

Peanut hafði þurft að sæta illri meðferð fyrstu mánuði lífs síns og var hann brenndur víðs vegar um líkamann sem skýrir á nokkurn hátt útlit hans. Hann var fluttur í dýraathvarf og níu mánuðum síðar tók Holly hann að sér.

Hundurinn Elwood, sem krýndur var ljótasti hundur í heimi árið 2007 og eflaust margir kannast við, eignaðist dyggan aðdáendahóp og kom fram á meira en tvö hundruð viðburðum. Þá safnaði hann mörg þúsund dollurum fyrir ýmis konar samtök sem bjarga dýrum. Elwood drapst í lok síðasta árs.

Hinn gamalkunni Elwood.vísir/afp
Peanut er eflaust sáttur með þennan vafasama titil.vísir/afp
Peanut með eiganda sínum, Holly.vísir/afp
Þessi var klæddur upp í tilefni dagsins.vísir/afp



Fleiri fréttir

Sjá meira


×