Innlent

Guðrún sagði að samstaða kvenna myndi leiða til breytinga

Stefán Árni Pálsson skrifar
Guðrún Jónsdóttir, tók til máls á Nordiskt Forum – New Action on Women's Rights í dag.
Guðrún Jónsdóttir, tók til máls á Nordiskt Forum – New Action on Women's Rights í dag. visir/Hannie Mist

Rúmlega 350 Íslendingar eru nú á stærstu jafnréttisráðstefnu Norðurlanda í 20 ár sem fer fram í Malmö, Svíþjóð.

Ráðstefnan, Nordiskt Forum – New Action on Women‘s Rights, stendur yfir fram á sunnudag en búist er við um 6000 manns á ráðstefnunni.

Nordiskt Forum er stærsta ráðstefna um kvenréttindi og jafnréttismál á Norðurlöndum í tuttugu ár, en áður var hún haldin í Osló 1988 og Turku 1994.

Tvö hundruð félagasamtök frá öllum Norðurlöndunum standa að þessari ráðstefnu, þar á meðal Kvenréttindafélag Íslands og Kvenfélagasamband Íslands.

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, hélt ræðu á ráðstefnunni í dag en hún talaði meðal annars um kvennafrídaginn hér á Íslandi og benti á að 50 þúsund konur hefðu mótmælt kynbundnum launamismun í tíu stiga frosti hér á landi árið 2010.

Guðrún sagðist ekki vera með svarið af hverju karlmenn beita konur ofbeldi eða af hverju launamismunurinn lifir enn.

Frá ráðstefnunni í dag. visir/hanna

Hún benti jafnframt á það að þegar konur kæmu saman líkt og á þessari ráðstefnu myndi það leiða til breytinga.

Frú Vigdís Finnbogadóttir mun ávarpar ráðstefnuna á opnunarhátíðinni í kvöld og einnig tekur hún þátt í viðburðinum „Run the world!“ á stóra sviðinu á morgun. 

Íslenskar konur úr öllum áttum taka þátt í opinberu pallborðsumræðum ráðstefnunnar, sem mun móta lokaskjal ráðstefnunnar. 

Umfjöllunarefni þessara pallborðsumræða eru byggð á aðgerðaráætlunum og skilyrðum Pekingsáttmálans 1995 og CEDAW-sáttmálans um afnám allrar mismunar gegn konum sem samþykktur var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1979.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.