Innlent

Ný íslensk kvikmynd um norðurljós

Stefán Ó. Jónsson skrifar
MYND/ICELANDAURORAFILMS

Verið er að leggja lokahönd á nýja íslenska norðurljósamynd sem fyrirhugað er að komi út á mynddiskum og á netinu í næsta mánuði.

Myndin mun bera nafnið Iceland Aurora og var fyrsta sýnishornið úr myndinni frumsýnt á netinu í gær og hefur það fengið miklar viðtökur en rúmlega fimm þúsund manns hafa nú þegar horft á stikluna. Tökur á myndinni hafa staðið yfir undanfarin þrjú ár og er meginþorri efnisins tekinn upp síðastliðinn vetur.

Hópurinn sem kom að myndinni eyddi alls 87 nóttum utandyra við tökur á myndinni í vetur og er myndefnið fengið af 50 mismunandi stöðum, víðsvegar um Ísland.

Höfundar myndarinnar eru þrír; þeir Arnþór Tryggvason, Pétur Kristján Guðmundsson og Snorri Þór Tryggvason sem allir eru sjálfstætt starfandi.

MYND/ICELANDAURORAFILMS

Myndin er samstarfsverkefni tveggja myndvera, Trailerpark Studios og Borgarmyndar og er tónlistin sem heyrist í stiklunni hér að neðan sérsamin af Pétri Jónssyni hjá Anthemico Records.

Myndin verður um hálftími að lengd og er samsett úr tugum þúsunda ljósmynda, sem settar eru saman í svokallaðar „timelapse“ klippur er fram kemur í tilkynningu frá Borgarmynd.

Myndin mun samanstanda af sólseturs-, nætur-, norðurljósa- og sólarupprásarsenum, þó meginuppistaðan séu sem fyrr segir norðurljós. „Það er enginn þulur eða útskýringar í myndinni, heldur leiðir myndefnið og tónlist áhorfandann í gegnum íslenskar vetrarnætur, undir bjarma norðurljósanna,“ eins og segir í tilkynningunni.

Stiklu úr myndinni má sjá hér að neðan en hún verður gefin út í svokölluðum 4K og FullHD ofurupplausnum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira