Innlent

Ný íslensk kvikmynd um norðurljós

Stefán Ó. Jónsson skrifar
MYND/ICELANDAURORAFILMS
Verið er að leggja lokahönd á nýja íslenska norðurljósamynd sem fyrirhugað er að komi út á mynddiskum og á netinu í næsta mánuði.

Myndin mun bera nafnið Iceland Aurora og var fyrsta sýnishornið úr myndinni frumsýnt á netinu í gær og hefur það fengið miklar viðtökur en rúmlega fimm þúsund manns hafa nú þegar horft á stikluna. Tökur á myndinni hafa staðið yfir undanfarin þrjú ár og er meginþorri efnisins tekinn upp síðastliðinn vetur.

Hópurinn sem kom að myndinni eyddi alls 87 nóttum utandyra við tökur á myndinni í vetur og er myndefnið fengið af 50 mismunandi stöðum, víðsvegar um Ísland.

Höfundar myndarinnar eru þrír; þeir Arnþór Tryggvason, Pétur Kristján Guðmundsson og Snorri Þór Tryggvason sem allir eru sjálfstætt starfandi.

MYND/ICELANDAURORAFILMS
Myndin er samstarfsverkefni tveggja myndvera, Trailerpark Studios og Borgarmyndar og er tónlistin sem heyrist í stiklunni hér að neðan sérsamin af Pétri Jónssyni hjá Anthemico Records.

Myndin verður um hálftími að lengd og er samsett úr tugum þúsunda ljósmynda, sem settar eru saman í svokallaðar „timelapse“ klippur er fram kemur í tilkynningu frá Borgarmynd.

Myndin mun samanstanda af sólseturs-, nætur-, norðurljósa- og sólarupprásarsenum, þó meginuppistaðan séu sem fyrr segir norðurljós. „Það er enginn þulur eða útskýringar í myndinni, heldur leiðir myndefnið og tónlist áhorfandann í gegnum íslenskar vetrarnætur, undir bjarma norðurljósanna,“ eins og segir í tilkynningunni.

Stiklu úr myndinni má sjá hér að neðan en hún verður gefin út í svokölluðum 4K og FullHD ofurupplausnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×