Innlent

Vorið jafnvel það besta í hálfa öld

Kristján Már Unnarsson skrifar
Sumarkoman í ár er jafnvel sú besta í hálfa öld, segir elsti ráðunautur Bændasamtakanna, Ólafur Dýrmundsson. Hann telur að gróður sé hálfum mánuði fyrr á ferðinni en í meðalári. Hann þakkar það góðri vætutíð í maímánuði.

„Það hefur verið svo góð sprettutíð. Það hefur verið hæfilegur raki í maímánuði, - það hefur oft verið mjög þurrt í maímánuði. Og það hefur verið lítið um frostnætur," segir Ólafur.

Hann hefur starfað að málefnum landbúnaðarins í yfir fjörutíu ár og er nú elsti ráðunautur Bændasamtakanna. Hann telur að fara þurfi áratugi aftur í tímann til að finna dæmi um jafn góða sumarbyrjun fyrir gróðurinn.

„Jafnvel 50 ár. Ég man vel eftir vorinu 1964. Það var mjög gott vor. 1974 var einnig gott og jafnvel 1980. En ég treysti mér ekki til að fara mikið nær,“ segir Ólafur.

Ein vísbendingin um sterka sumarbyrjun er lúpínan. Hún er farin að blómstra og farin að mynda bláar breiður, jafnvel 2-3 vikum fyrr á Reykjavíkursvæðinu en venjulega. Trén við Bændahöllina segja líka sína sögu en þar eru blómin farin að sjást á reyniviðnum og gullregninu.

Ólafi finnst gróðurinn núna fyrstu dagana í júní líkari því sem venjulega er seinnipartinn í júní. Það muni allt að tveimur vikum miðað við meðalár, að minnsta kosti sunnanlands. Hann segir að staðan sé góð um land allt, nema á nokkrum stöðum sé þó kal í túnum eftir svellalög vetrarins. Landsmenn sjá gróskuna allt í kringum í sig og bændur kætast.

„Sérstaklega hér á sunnanverðu landinu. Þeir eru að byrja að heyja núna, sem er mjög snemmt. Það má reikna með því að heyskapur byrji almennt snemma. Úthagi lítur vel út og trjágróður lítur alveg sérlega vel út.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×