Innlent

Kallar Kristján Loftsson óþokka

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Þýski aðgerðarsinninn sem hlekkjaði sig í mastri Hvals 8 í Reykjavíkurhöfn segir að Kristján Loftsson, eigandi Hvals hf. sé óþokki. Þjóðverjinn fór niður úr mastrinu undir kvöld en forsvarsmenn Hvals hf. höfðu ekki afskipti af honum.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 var rætt við Andre Feuherhahn, þýskur aðgerðarsinni, sem tengist meðal annars Sea Sheppard samtökunum. Hann er nú kominn niður úr mastrinu.

„Ég kom til Íslands fyrir 10 dögum sem ferðamaður frá Berlín og ferðaðist um landið. Þegar ég komst að því að enn eru stundaðar veiðar á langreyði hér á landi af Kristjáni Loftssyni, þá gat ég ekki hugsað mér að sitja aðgerðarlaus,“ segir hinn 32ja ára gamli Feuherhahn.

Hann segir að starfsmenn Hvals hf. hafi verið vinalegir í sinn garð. „Þeir eru alltaf að taka myndir. Þeir virðast vera venjulegir verkamenn. Ég veit ekki hvort þeir taka þátt í hvalveiðum. Ég held að það sé Kristján Loftsson sem sé óþokkinn.“

Fréttamaður skammaður

Halldór Gíslason hjá Hvali hf. veitti fréttimanni tiltal eftir að hafa klifrað upp í mastur til að ræða við þýska aðgerðarsinnan. Starfsmenn Hvals hf. fara ekki upp í mastur án þess að vera í líflínu. Eftir að fréttamaður baðst afsökunar þá veitti Halldór viðtal og sagði þetta vera í fyrsta sinn í aldarfjórðung sem mótmælt sé með viðlíka hætti.

„Þetta gerðist síðast upp í Hvalfirði. Þá voru aðrar forsendur - þá vorum við á veiðum og okkur lá á að komast aftur út á sjó. Við erum ekkert að fara svo þetta er í lagi.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×