Innlent

Strætóbílstjóri í spjaldtölvu undir stýri

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Á myndinni sést greinilega hvernig vagnstjórinn notar spjaldtölvuna í miðjum akstri. Kolbeinn segir málið litið alvarlegum augum.
Á myndinni sést greinilega hvernig vagnstjórinn notar spjaldtölvuna í miðjum akstri. Kolbeinn segir málið litið alvarlegum augum. MYND/SYLVÍA HALL
Farþegum strætisvagnsins sem ók leið 11 á föstudagskvöld var brugðið þegar þeir sáu að vagnstjórinn lék sér í spjaldtölvu á meðan hann ók vagninum.

Bílstjóranum gæti verið vikið úr starfi vegna málsins segir Kolbeinn Óttarsson Proppé, upplýsingafulltrúi Strætó bs.

Átti athygli hans alla

„Hann leit ekki upp af tækinu frá því að hann tók af stað úr Mjóddinni og alveg niður að Sprengisandi,“ segir Sylvía Hall, einn farþeganna.

Sylvía vakti athygli á málinu og setti mynd af vagnstjóranum inn á Facebook-síðu Strætó, sem má sjá hér að ofan. Á myndinni sést greinilega hvernig vagnstjórinn tekur augun af veginum til að lesa af skjá tækisins.

Sylvía segir að aðrir farþegar hafi rekið augun í þetta og fólki hafi ekki staðið á sama. Leið 11 ekur frá Mjódd út á Seltjarnarnes.

Með öllu ólíðandi

Kolbeinn Óttarsson Proppé, upplýsingafulltrúi Strætó bs. segir þetta athæfi vagnstjórans með öllu ólíðandi. „Við hjá Strætó hörmum þetta atvik og lítum þetta mjög alvarlegum augum,“ segir Kolbeinn í samtali við Vísi.

Hann bætir við að vagnstjórinn sem á í hlut verður nú kallaður fyrir og farið verður yfir málið með honum. „Þetta er skýrt brot á starfsreglum fyrirtækisins og almennum umferðarlögum og tilefni til áminningar – jafnvel brottrekstur,“ segir Kolbeinn.

Í kjölfar myndbirtingarinnar mun Strætó bs. nýta tækifærið til að fara yfir öryggismál fyrirtækisins og vill Kolbeinn þakka athugulum farþegum fyrir að benda á athæfi sem þetta. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×