Innlent

Ekki til skrifleg stefnumótun í útlendingamálum

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Izekor Osazee, flóttamaður frá Nígeríu, kom hingað til lands í ágúst 2012 og sótti um hæli. Hún giftist Gísla Jóhanni Grétarssyni tólfta apríl síðastliðinn, en í síðustu viku var henni tilkynnt að henni yrði vísað úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. DV greindi fyrst frá málinu. 

Izekor var handtekin klukkan tíu í morgun þegar hún kom á lögreglustöðina til að sinna tilkynningaskyldu.

Fljótlega eftir að hún var handtekin kom fólk saman við lögreglustöðina til að mótmæla og krefjast þess að henni yrði sleppt úr haldi. Gísli Jóhann fékk að vera í einn klukkutíma með konu sinni og var í miklu uppnámi þegar við ræddum við hann eftir hádegi. 

„Þetta er ástin í lífi mínu og ég myndi gera allt fyrir hana. Ég skil ekki hvers vegna hún þarf eitthvað leyfi til að fá að vera með mér. Þetta er skammarlegt og ég hef bara misst alla trú á þessu kerfi,“ sagði Gísli. 

Einnig var mótmælt við Útlendingastofnun, en skilyrði til að fá útgefið dvalarleyfi hér á landi er til dæmis að umsækjandi sé í hjúskap með íslenskum ríkisborgara. Mótmælendurnir sóttu nokkuð hart að Kristínu Völundardóttur, forstjóra stofnunarinnar, og spurðu hvort til væri stefna í útlendingamálum á Íslandi. Hún svaraði þá að engin skrifleg stefna væri til en að stefna stjórnvalda fælist í lögum.

Seinnipartinn í dag var svo tekin ákvörðun um að Izekor yrði sleppt úr haldi og ekki send úr landi í fyrramálið eins og til stóð vegna stefnumótunar í Innanríkisráðuneytinu. Helga Vala Helgadóttir, lögmaður Izekor, segist vona að þetta verði til þess að sambærileg mál verði unnin með sama hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×