Innlent

Tortryggja jarðakaup Nubos á Svalbarða

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Longyearbyen, höfuðstað Svalbarða. Landið sem Nubo vill kaupa er við fjallið sem sést fjær.
Frá Longyearbyen, höfuðstað Svalbarða. Landið sem Nubo vill kaupa er við fjallið sem sést fjær. Stöð 2/Kristján Már Unnarsson.

Ósk Kínverjans Huangs Nubo að kaupa hluta af Svalbarða vekur tortryggni í Noregi. Þar hafa bæði stjórnmálamenn og Kínasérfræðingar varað við sölunni og blandað Íslendingum í umræðuna.

Nubo vill kaupa svæði við höfuðstaðinn Longyearbyen. Bærinn stendur við Aðventufjörð en það er um 200 ferkílómetra land í einkaeigu við þennan sama fjörð, 0,35% af Svalbarða, sem Huang Nubo vill eignast. Eins og á Íslandi segir hann tilganginn að byggja hótel.

Norskir fjölmiðlar hafa mikið fjallað um Nubo síðustu daga.

Það má vel líta á þetta sem góða viðskiptahugmynd því 70 þúsund ferðamenn heimsóttu Svalbarða í fyrra og þar hafa hótel og veitingastaðir sprottið upp á síðustu árum. Ekki spillir að Svalbarði er skattaparadís. Þangað er daglegt áætlunarflug og landið sem Nubo vil eignast er stutt frá flugvellinum. 

En rétt eins og á Íslandi þá mæta áform Nubos tortryggni í Noregi. Það virðast ekki allir trúa því að hér sé bara á ferðinni kínverskur kaupsýslumaður, saklaust ljóðskáld og Íslandsvinur. Efasemdarmenn gefa í skyn að kínversk stjórnvöld séu að baki Nubo og tilgangurinn sé að ná fótfestu á Norðurslóðum. 

Frá rússneska kolanámubænum Barentsburg. Vélsleðaferðir eru vinsælar meðal þeirra tugþúsunda ferðamanna sem heimsækja Svalbarða á hverju ári. Stöð 2/Kristján Már Unnarsson.

Áhrifamiklir stjórnmálamenn hafa varað við sölunni, einnig sérfræðingar í málefnum Kína. Norskir fjölmiðlar hafa meira að segja dregið fram Ögmund Jónasson í umræðuna en hann var sá íslenskra ráðherra sem harðast beitti sér gegn því að Nubo fengi að kaupa Grímsstaði á Fjöllum.


Tengdar fréttir

Kanna hvort Svalbarði nýtist olíuiðnaði

Norska ríkisstjórnin hefur falið Olíustofnun Noregs að leggja mat á hvort Svalbarði geti nýst olíuiðnaði. Það er í tengslum við hugsanlega umsókn um að Svalbarði fari á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna sem Olíustofnunin er beðin um að kanna hvaða áhrif slík staða eyjanna hefði á mögulega nýtingu þeirra sem bækistöðvar eða flutningamiðstöðvar, ef norðurhluti Barentshafs yrði opnaður til olíuleitar.

Segir yndislegt í kuldanum uppi á Svalbarða

Ferðamannatíminn á Svalbarða er í hámarki þessa dagana, á tímabilinu frá apríl og fram í maí, þótt enn megi búast við yfir tuttugu stiga frosti þar. Kristján Már Unnarsson kynnti sér hversvegna ferðamenn sækja í slíka klakahöll á þessum árstíma.

Forðast að skjóta hvítabirnina á Svalbarða

Á Svalbarða forðast menn í lengstu lög að skjóta hvítabirni, enda alfriðaðir, og ef slíkt gerist kallar það undantekningalaust á lögreglurannsókn. Kristján Már Unnarsson var á ísbjarnarslóðum á Svalbarða.

Lenín vakir enn yfir Barentsburg á Svalbarða

Einn leyndardómsfyllsti bær á dögum kalda stríðsins var Barentsburg á Svalbarða en þar réðu Sovétmenn ríkjum. Vegna Svalbarðasáttmálans er staða eyjaklasans mjög sérstök að þjóðarétti og hafa ýmsar þjóðir nýtt sér það með eigin bækistöðvum. Byggðin er einkum á fjórum stöðum, Longyearbyen, Nýja-Álasundi, Sveagruva og Barentsburg en þann stað ætlum við að skoða nánar. Risastórar glæsimyndir á húsveggjum af vinnandi alþýðuhetjum minna þar á forna tíma. Þarna vakir Lenín yfir bænum, en kannski er það táknrænt að húsið fyrir aftan er orðið rammskakkt. Kolakraninn við höfnina minnir á athafnir en bæinn byggðu Sovétmenn í kringum kolanámur. Þegar betur er að gáð kemur í ljós að þetta er enginn draugabær. Hann er raunar sprelllifandi, trukkar eru á fleygiferð því kolavinnslan er enn í fullum gangi. Þarna búa nú um fjögurhundruð manns, einkum Rússar og Úkraínumenn. Þeir hafa sjúkrahús og íþróttahús, verslun, veitingahús og hótel en líka barna- og unglingaskóla því í bænum eru um fjörutíu börn. Á árum kalda stríðsins voru hér mest um eitt þúsund Rússar og Norðmenn telja nokkuð víst að þeir hafi nú ekki allir verið að vinna kol. Sovétmenn voru einnig á fleiri stöðum á eyjaklasanum. Svalbarði var nefnilega einn af heitu stöðunum í togstreitu NATO-ríkja og Sovétblokkarinnar. Gagnkvæm tortryggni ríkti um öll umsvif en samkvæmt Svalbarðasáttmálanum er hverskyns hernaðarbrölt þar bannað. Ræðismannsskrifstofa Sovétmanna í Barentsburg þótti hins vegar grunsamlega stór og þyrluflugvöllur á Herodda þótti búinn óvenju flóknum tækjum, ratsjám og loftnetum. En nú virðast allir vera orðnir vinir. Vestrænir ferðamenn flykkjast nú hingað á vélsleðum til að upplifa gamla sovéttímann og Rússarnir reyna að græða á öllu saman með því að selja þeim veitingar, gistingu, minjagripi og leiðsögn.

Barirnir komu Íslendingnum á Svalbarða á óvart

Miklar breytingar hafa orðið á samfélaginu á Svalbarða á undanförnum árum. Þar sem áður voru einkum kolanámuverkamenn er nú vísindasamfélag og vaxandi ferðaþjónusta, - og þar býr auðvitað Íslendingur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.