Innlent

Eintóm hamingja að fá loks nágranna

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Birna og blokkin fræga.
Birna og blokkin fræga.
Birna Sverrisdóttir, sem oftast er kölluð Birna í blokkinni, fær loks nágranna í blokk sína við Stamphólsveg í Grindavík, en hún hefur búið þar ein í nærri sex ár. Með börnum munu hátt í fimmtíu manns flytja frá Húsavík til Grindavíkur á vegum útgerðarfyrirtækisins Vísis hf., en búið er að festa kaup á sex íbúðum í blokk Birnu.

„Þetta er bara eintóm hamingja. Ég hlakka til að fá fólk og börn og líf í húsið,“ segir Birna og bætir við að það hafi þó aldrei farið illa um hana í húsinu.

Birna flutti inn í húsið á aðfangadag árið 2007. Húsið var þá óklárað, og var framkvæmdum hússins hætt árið 2008, skömmu eftir að hún flutti inn í það. „Ég vona bara að framkvæmdir hefjist aftur. Það er dálítið hljóðbært og húsið tekur á sig veður. Lóðin er ókláruð og ég keypti íbúð með bílskúr, sem hefur þó ekki verið byggður.“

Sagan um Birnu og blokkina fór að berast um Suðurnesin og eftir grein sem Morgunblaðið birti fyrir fjórum árum síðan. Birnu líkar viðurnefnið og vonar að það haldist, fólk kannist við hana og taki fólk og börn sig oft á tal við hana út af nafninu.

Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Grindavík, segir að verulega sé að rætast úr leigumarkaðnum í bænum, ekki síst þar sem verktaki hefur nú keypt stóru blokkina svonefndu, en með henni muni tuttugu og þrjár íbúðir koma til viðbótar inn á þann markað. Þá segir hann að nægt leiksskóla- og skólapláss sé til staðar í Grindavík.


Tengdar fréttir

Neyðast til að flytja þvert yfir landið

Justyna Gronek og fjölskylda hennar hefur búið á Húsavík í fimm ár. Þau flytja nú til Grindavíkur þrátt fyrir að hafa nýlega fest kaupa á íbúð á Húsavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×