Innlent

Flugmenn hjá Icelandair á leið í aðgerðir

Heimir Már Pétursson skrifar
Formaður samninganefndar flugmanna hjá Icelandair segir félagið vel hafa efni á að greiða hærri laun. Yfirstjórn félagsins hafi fengið ríflegar hækkanir og hluthafar greiddan út góðan arð.
Formaður samninganefndar flugmanna hjá Icelandair segir félagið vel hafa efni á að greiða hærri laun. Yfirstjórn félagsins hafi fengið ríflegar hækkanir og hluthafar greiddan út góðan arð. vísir/vilhelm
Formaður samninganefndar flugmanna hjá Icelandair segir stjórnendur fyrirtækisins og hluthafa hafa fengið miklar hækkanir og arðgreiðslur að undanförnu og nú sé komið að starfsmönnum. Flugmenn hjá Icelandair greiða þessa dagana atkvæði um aðgerðir sem hefjast eftir rúman hálfan mánuð verði þær samþykktar.

Atkvæðagreiðslan hófst í gær og lýkur næst komandi þriðjudag. Örnólfur Jónsson formaður samninganefndar flugmanna segir að aðgerðirnar verði samþykktar muni flugmenn hjá Icelandair fara í ótímabundið yfirvinnubann.

„Sem myndi hefjast hinn 9. maí og eins fimm verkföll sem myndu ná yfir þriggja vikna tímabil frá þeim tíma,“ segir Örnólfur. Þau verkeföll myndu aldrei standa yfir í skemmri tíma en hálfan sólarhring í senn.

Hann segir ljóst að þessar aðgerðir muni hafa mjög alvarleg áhrif á áætlun Icelandair, hins vegar séu enn tvær og hálf vika í aðgerðir og hægt að ná samningum fyrir þann tíma ef vilji er fyrir hendi til þess.

„Við gerum umtalsverðar launakröfur og horfum til þess að nú eru fjögur bestu rekstrarár í sögu Icelandair að baki. Félagið hefur aldrei staðið jafn sterkt fjárhagslega. Stjórnendur hafa fengið gríðarlegar hækkanir á síðasta samningstímabili. Hluthafarnir geta ekki verið annað en ánægðir með sinn hlut. Það er einfaldlega komið að starfsfólkinu,“ segir Örnólfur.

Seðlabankinn hafi gefið það út að útflutningsatvinnuvegirnir geti greitt hærri laun án þess að það ruggi þjóðarskútunni og það eigi við um Icelandair. Kjarasamningar flugmanna runnu út í lok nóvember.

„Þannig að það er nokkur tími liðiðinn og það er boðaður fundur eftir helgi. En það má segja að viðræðurnar séu í ákveðnu öngstræti eins og er,“ segir Örnólfur og viðsemjendur ekkert nálgast kröfur flugmanna. Hins vegar sé hugur í flugmönnum og líklegt að aðgerðirnar verði samþykktar.

„Ég tel allar líkur á því, já,“ segir hann..

Eins og áður sagði verður yfirvinnubannið ótímabundið sem þýðir að flugmenn verða ekki til reiðu til að leysa af vegna veikinda og svo framvegis, en skæruverkföllin fimm fara fram á þriggja vikna tímabili eftir 9. maí.

En ef ekki nást samningar á þeim tíma munu flugmenn þá skoða að fara í allsherjarverkfall?

„Það hafa engar ákvarðanir verið teknar um slíkt. Þetta er það sem við leggjum upp með núna og svo skoðum við okkar gang ef þetta dugar ekki til,“ segir Örnólfur Jónsson. Icelandair sé vel aflögufært.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×