Innlent

Mikilvægt að kynna sér ástandið af eigin raun

Heimir Már Pétursson skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson.
Gunnar Bragi Sveinsson. vísir/kristinn
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra er á leið til Kænugarðs til að kynna sér ástandið og greina ráðamönnum þar frá þátttöku Íslands í refsiaðgerðum.

Fréttamenn Vísis, Stöðvar 2 og Fréttablaðsins eru með í för og munu greina frá heimsókninni.

Ráðherra mun einnig heimsækja úkraínska þingið og Maidan torg þar sem talið er að allt að 80 manns hafi fallið fyrir skotum leyniskytta í mótmælum almennings gegn stjórn Janukovits fyrrverandi forseta landsins.

Gunnar Bragi mun kynna ráðamönnum í Kænugarði afstöðu íslenskra stjórnvalda til yfirtöku Rússa á Krímskaga sem ráðherrann hefur lýst yfir að sé brot á alþjóðalögum og þátttöku Íslands í refsiaðgerðum gegn Rússum.

En Ísland hefur t.d ásamt öðrum EFTA ríkjum slegið á frest fyrirhuguðum viðræðum um fríverslunarsamning við Rússa og þá gilda einnig ferðatakmarkanir sem Bandaríkjamenn og Evrópusambandið hafa sett á hóp rússneskra  og úkraínskra stjórnmálamanna, embættismanna og viðskiptamanna, sem og um frystingu eigna.

Gunnar Bragi ætlar að að kynna sér ástandið af eigin raun. Um borð í flugvél Icelandair til Helsinki, þar sem millilent verður á leiðinni til Kænugarðs sagði Gunnar Bragi að Fyrir utan fundi með ráamönnum stefni hann að því að eiga fundi með fulltrúum frjálsra félagasamtaka og alþjóðastofnana.

„Mér finnst mikilvægt að sýna Úkraínumönnum samstöðu á þessum erfiðu tímum," segir Gunnar Bragi.

Utanríkisráðherra og föruneyti hans er væntanlegur til Kænugarðs um klukkan átta í kvöld að íslenskum tíma og hefst hin formlega dagskrá hans snemma í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×