Skoðun

Heimilisbókhald á mannamáli

Georg Lúðvíksson skrifar

Í kjölfar Alþjóðlegrar viku fjármálalæsis sem haldin var 10-17 mars og fékk verðskuldaða athygli, er við hæfi að velta fyrir okkur bókhaldi heimilisins. Sem einstaklingar upplifum við takmörkuð áhrif á efnahagsmál þjóðfélagsins í heild en okkar eigin fjármál eru á okkar valdi í allflestum tilfellum. Heimilisbókhald er okkar ástríða hjá Meniga og við erum stolt yfir því að hjálpa tugþúsundum Íslendinga á hverjum degi að hafa nauðsynlega yfirsýn á fjármálum heimilisins. En hvað þýðir það að halda heimilisbókhald?

Fjárhagsleg heilsa er á allra færiHeimilisfjármálin eru í senn einföld og flókin. Einföld vegna þess að allt sem til þarf er að fylgja örfáum einföldum lögmálum sem allir skilja. En flókin vegna þess að árangursrík stjórnun heimilisfjármála byggir á að að velja og hafna í lífinu sem getur verið allt annað en einfalt. Flestum er t.d. eðlislægt að leitast við að jafna neyslu yfir ævina og skuldsetja sig á yngri árum. Lánamöguleikar í nútíma samfélagi gera okkur þetta kleift en allt of margir missa stjórn á skuldsetningunni, eru í eilífu basli og hafa ekki borð fyrir báru þegar áföll ber að garði. Tilhneigingin til að skuldsetja sig á einnig skýringar í rannsóknum sem sýna að fólk upplifir sig almennt ekki ríkt eða fátækt út frá kaupmætti heldur frekar út frá því hvar það stendur miðað við aðra í samfélaginu. Óhófleg skuldsetning minnkar hins vegar lífsgæði til lengdar og gerir fólk berskjaldað fyrir fjárhagslegum áföllum, sér í lagi í óstöðugu efnahagsumhverfi eins og við höfum upplifað á Íslandi undanfarin ár.  Þegar öllu er á botninn hvolft snúast fjármálin um að þekkja sjálfan sig, gera raunhæfar áætlanir til framtíðar og velja milli neyslu í nútíð eða meiri neyslu í framtíð því hver einasta króna sem eytt er í dag kostar margar krónur síðar á ævinni, sér í lagi þegar vextir eru háir.



Góðu fréttirnar eru að allir sem ekki eru komnir með fjárhaginn í óefni geta, nær óháð tekjum, skapað sér fjárhagslegt öryggi og frelsi með því að fylgja örfáum einföldum reglum.

1) Grundvallarreglan: Eyddu minna en þú aflar

Þó þessi regla virðist augljós er staðreyndin sú að fæstir eru almennilega með það á hreinu hvort þeir fylgja henni. Jafnvel þó þú hafir góðar tekjur er auðvelt að lifa um efni fram, safna skuldum smátt og smátt með tilheyrandi vaxtakostnaði og berjast stöðugt í bökkum. Leiðin út úr vítahringnum hefst á því að öðlast yfirsýn yfir tekjur og gjöld frá mánuði til mánaðar. Lausnir á borð við Meniga geta hjálpað á margvíslegan hátt hvað þetta varðar: Meniga flokkar öll útgjöld og tekjur sjálfkrafa og sýnir þér svart á hvítu hvert peningarnir fara og hvort verið er að eyða um efni fram eður ei í hverjum mánuði. Meniga setur líka sjálfkrafa upp fjárhagsáætlun og aðstoðar þig við að setja þér markmið.



En yfirsýn og áætlunagerð eru bara fyrstu skrefin. Markmiðið er að ná alltaf endum saman og helst eiga afgang um hver mánaðamót. Ef endar ná ekki saman eru einungis tvær leiðir til að bæta stöðuna: Að afla meira eða eyða minna. Því meira sem þú leggur á þig við að afla meiri tekna eða eyða minna, því líklegra er að þú eigir afgang um hver mánaðamót og þá er fjárhagslegt frelsi innan seilingar.

2) Aflaðu meira

Það er að sjálfsögðu engin ein leið sem hentar öllum til að auka tekjur sínar en flestir geta þó gert eitthvað:



Haltu áfram að mennta þig. Hér er ekki endilega átt við að þú eigir að hætta að vinna og fara í skóla heldur frekar að þú eigir stöðugt að viða að þér nýrri þekkingu og þroska hæfileika þína. Sama hvað þú fæst við í lífinu þá er alltaf hægt að finna leiðir til að læra meira og bæta sig, hvort sem það felst í að fara í skóla eða námskeið, leita til reyndari manna eða lesa sér til.



Starfaðu við það sem þú hefur brennandi áhuga á. Hvenær sem tækifæri gefst skaltu færa þig nær því að starfa við eitthvað sem þú ert spennt(ur) fyrir vegna þess að brennandi áhugi er næstum því trygging fyrir árangri í starfi. Árangur í starfi hefur oftast í för með sér hærri tekjur auk þess sem lífið verður óendanlega miklu meira gefandi þegar þú hlakkar til að mæta í vinnuna á hverjum morgni.



Aflaðu aukatekna. Hafðu augun opin fyrir tækifærum til að afla aukatekna en þó þannig að það hafi ekki neikvæð áhrif á þitt aðalstarf. Kannski býrð þú yfir þekkingu og/eða hefur einhvern hæfileika sem getur aflað þér aukatekna. Ef til vill áttu einhverja eign sem hægt er að nýta til tekna. Hugsanlegt er að þú getir haft tekjur af áhugamáli sem þú sinnir hvort sem er. Eða kannski lumar þú á snjallri viðskiptahugmynd sem þú getur stofnað rekstur í kringum og sinnt í frítímanum. Ef þér tekst að skapa þér fleiri tekjulindir hefur það ekki eingöngu í för með sér að tekjur þínar aukast heldur dregur það einnig úr áfallinu við það að glata einni tekjulind (t.d. missa vinnuna). Og hver veit nema aukatekjurnar verði síðar meir að aðaltekjum.



Haltu sambandi við sem flesta og ekki brenna brýr. Maður veit aldrei hvar og hvenær tækifærin birtast og öflugt tengslanet er lykill að tækifærum. Uppbygging tengslanets snýst ekki um yfirborðskennd samskipti heldur um að sýna fólki raunverulega umhyggju og áhuga og vera stöðugt vakandi fyrir því hvenær þú getur hjálpað þeim sem þú þekkir. Í hvert skipti sem þú hjálpar einhverjum, hvort sem það er góður vinur eða kunningi, eykur þú líkurnar á að viðkomandi hafi þig í huga þegar þú þarft á því að halda. Að rækta sambandið við vini og kunningja kostar ekkert og gerir lífið innihaldsríkara. Að sama skapi ættir þú að reyna að standast freistinguna að tala illa um eða leggja stein í götu þeirra sem beita þig órétti eða koma illa fram við þig – það hefur aldrei neitt gott í för með sér.

3) Eyddu minna - sparsemi er dyggð

Sparsemi er ekki það sama og níska og þarf ekki að hafa í för með sér að þú sért stöðugt að neita þér um það sem þig langar í. Staðreyndin er líka sú að sparsamt fólk er oft (en auðvitað ekki alltaf) laust við fjárhagsáhyggjur. Það er ekki að drukkna í húsnæðisláninu sínu, það er ekki með yfirdráttinn í botni, það vinnur ekki myrkranna á milli og líkur eru á að það eigi varasjóði til að mæta áföllum í lífinu. Með öðrum orðum, það lifir lífinu á eigin forsendum.



Allir geta tileinkað sér sparsemi án þess að það bitni verulega á lífsstílnum. Eftirfarandi eru einfaldar reglur sem henta flestum:

  • Nýttu peningana sem best. Í hvert skipti sem þú eyðir peningum ertu að taka ákvörðun um að það sem þú ert að kaupa sé þess virði. Lykillinn að því að eyða minna er að velta alvarlega fyrir sér hvers virði frelsi frá fjárhagsáhyggjum er í þínu lífi. Öll könnumst við við að kaupa eitthvað sem við notum svo ekki eða sjáum eftir síðar. Vendu þig á að velja að kaupa ekki það sem þú ert ekki viss um að þú þurfir eða prófaðu að kaupa ódýrari gerðina og sjá til hvort þú finnur mun. Leitaðu að besta verðinu þegar þú ert viss um að þú þurfir að kaupa eitthvað.

  • Ekki spara þegar þú finnur virkilega fyrir því. Oftast þegar þú sparar eða sleppir því að kaupa eitthvað sem þig langar í kemstu að því að það skiptir engu máli fyrir líf þitt og hamingju. Stundum kemur þó fyrir að þú virkilega saknar einhvers. Í slíkum tilfellum ættir þú líklega ekki að sleppa því nema þú standir þeim mun verr fjárhagslega. Tilgangurinn með sparnaði er ekki að láta sér líða illa heldur sleppa bara því sem skiptir í raun litlu máli.

  • Ekki gleyma heildarmyndinni. Góð leið til að hjálpa þér að velja og hafna þegar kemur að útgjöldum er að hafa hugann við stóru markmiðin í lífi þínu. T.d. getur verið sniðugt að geyma myndir af því sem þú stefnir að í veskinu svo þú eigir auðveldara með að ákveða hvort það sem þú ert að íhuga að kaupa sé meira virði en að nálgast stóru markmiðin.

  • Þekktu veikleika þína og hafðu hemil á þeim. Allir hafa einhverja veikleika þegar kemur að eyðslu. Sumir eyða of miklu þegar þeir fara út að skemmta sér, aðrir þegar þeir eru í útlöndum. Leitaðu raunhæfra leiða til að halda veikleikunum í skefjum, t .d. með því að skilja kortin eftir heima eða með því að skrifa niður nákvæmlega hvað þig vantar áður en þú ferð að versla. Sumir hafa tilhneigingu til að eyða alltaf því sem er eftir um hver mánaðamót en þá getur verið sniðugt að millifæra fasta upphæð í hverjum mánuði á sparnaðarreikning og líta á það sem útgjöld (eyða í sparnað).

  • Vanar eru hættulegir! Flestir venja sig á að kaupa sömu hlutina aftur og aftur, t.d. cafe latte á leiðinni í vinnuna, sushi í hádeginu eða gos og nammi í lok vinnudags. Vanar af þessu tagi eru hættulegir fyrir fjárhaginn því margt smátt safnast saman í stórar upphæðir. 1.000 kr. útgjöld á hverjum virkum degi þýða t.d. útgjöld upp á 250.000 kr. á ári og enn meira ef þú ert með yfirdrátt. Það sakar ekki að prófa að sleppa stundum skyndibitanum í hádeginu og koma með nesti að heiman í staðinn – það gæti komið skemmtilega á óvart hversu auðvelt það er að spara stórar fjárhæðir með þessum hætti.

  • 10 sekúndna reglan. Í hvert skipti sem þú eyðir peningum – líka þegar þú borgar reikninga – skaltu venja þig á að staldra við í 10 sekúndur og spyrja þig hvort þetta sé eitthvað sem þú virkilega vilt eyða peningunum þínum í eða hvort hægt sé að finna ódýrari lausnir.

  • 1 viku reglan. Í hvert skipti sem þú ert að íhuga að kaupa eitthvað nýtt skaltu bíða í eina viku. Ef þú ert ekki búinn að gleyma því og langar ennþá jafn mikið í það skaltu kaupa það, annars ekki.

4) Greiddu upp skuldir og láttu peningana vinna fyrir þig

Í hvert skipti sem þú eykur tekjurnar eða lækkar útgjöldin eykst afgangurinn um hver mánaðamót. Þessi afgangur er leiðin að fjárhagslegu öryggi og frelsi en það er ekki sama hvað þú gerir við afganginn. Lykilatriði er að eyða honum ekki heldur fjárfesta til framtíðar. Um leið og þú átt afgang til að fjárfesta fara vextirnir að vinna með þér en ekki á móti. Fyrstu skrefin eru erfiðust en með tímanum munu töfrar vaxta og vaxtavaxta flýta því svo um munar að þú náir markmiðum þínum. Jafnvel lág upphæð sem lögð er fyrir í hverjum mánuði verður með tímanum að auðæfum. Miðað við 6% raunvexti eftir fjármagnstekjuskatt (sem ekki er óraunhæft til langs tíma) verða 20.000 kr. á mánuði að 19,5 milljónum á 30 árum og að 71 milljón á 50 árum. Takist þér að leggja fyrir 100.000 kr. á mánuði verða þær að 97 milljónum eftir 30 ár og að rúmlega 350 milljónum eftir 50 ár miðað við sömu forsendur. Í þessu samhengi vaxta og vaxtavaxta er sérlega mikilvægt að byrja snemma og hver króna sem þér tekst að leggja fyrir um tvítugt eða þrítugt er margfalt mikilvægari en króna sem þú leggur fyrir á síðari hluta ævinnar. Hér er einföld uppskrift að því að byggja upp eignir og láta peningana vinna fyrir sig:



I. Greiddu upp öll skammtímalán. Byrjaðu á að greiða upp yfirdráttinn, greiðslukortalán og önnur lán sem bera háa vexti. Losaðu þig fyrst við lánin með hæstu vextina og svo koll af kolli þangað til þú hefur losað þig við öll skammtímalán.



II. Safnaðu í varasjóð. Varasjóður er neyðarsjóður á óbundnum sparnaðarreikningi sem þú notar eingöngu til að mæta alvarlegum áföllum eins og atvinnumissi, alvarlegum veikindum eða stórtjóni. Þú ættir að hugsa varasjóðinn út frá því hvað hann dugir í marga mánuði fyrir nauðsynlegum útgjöldum. Þrír mánuðir er algjört lágmark en flestir mæla með 6 eða jafnvel 12 mánuðum.



III. Byggðu upp eignir með því að fjárfesta og greiða upp lán. Þegar þú ert búinn að útrýma skammtímaskuldum og safna í varasjóð (sem mun takast ef þú átt afgang um hver mánaðamót um nokkurn tíma) er kominn tími til að byggja upp eignastöðuna með því að fjárfesta og/eða greiða upp lán. Þú ættir að nota peningana til að greiða hraðar inn á lán nema þú teljir þig geta fjárfest með betri vöxtum en sem nemur vöxtunum af lánunum. Þannig borgar sig t.d. sjaldnast að greiða hraðar inná námslán frá LÍN því þau eru niðurgreidd og bera hagstæða vexti. Við fjárfestingar er mikilvægt að skilja áhættudreifingu og velja fjárfestingar í samræmi við þitt áhættuþol og markmið í lífinu. Þú ættir að tala við fjármálaráðgjafa eða íhuga eignastýringu ef þú treystir þér ekki til að fjárfesta sjálf(ur). Það getur þó verið skemmtilegt að fjárfesta sjálfur og alls ekki er víst að þú náir verri árangri en þeir sem hafa það að atvinnu ef þú kynnir þér málin vel.

5) Öðlastu fjárhagslegt frelsi og leitaðu hamingjunnar

Markmiðið með þessu öllu er ekki endilega að verða ríkur heldur að öðlast fjárhagslegt öryggi og frelsi. Frelsi frá skuldum og áhyggjum. Frelsi frá leiðinlegum yfirmönnum. Frelsi til að velja í hvað þú verð tíma þínum og hvernig þú hagar lífi þínu. Frelsi til að prófa nýja hluti, sinna áhugamálunum og fylgja hjartanu. Frelsið er einmitt það sem við flest sækjumst eftir í lífinu. Digrir sjóðir í banka tákna að við erum engum háð og getum einbeitt okkur að því að fylgja draumum okkar og þrám. Ef starfið er ekki gefandi ertu ekki háður launatékkanum og getur sagt upp. Þó margt eftirsóknarvert í lífinu sé ekki falt fyrir peninga gerir fjárhagslegt frelsi þér kleift að verja meiri tíma í að leita hamingjunnar og forðast margt af því sem kemur í veg fyrir að þú finnir hana. Það kostar vissulega vinnu, tíma og aga að öðlast fjárhagslegt frelsi en aðferðin er einföld og á allra færi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×